Fótbolti

Harpa þarf að skora og sjá um nýfæddan soninn: Erum ein stór fjölskylda

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir á æfingu Íslands í dag.
Harpa Þorsteinsdóttir á æfingu Íslands í dag. vísir/tom
Markahrókurinn Harpa Þorsteinsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, er í sérstakri stöðu á EM 2017 í Hollandi þar sem hún þarf ekki bara að æfa og keppa heldur einnig að hugsa um nýfædd barn.

Ein mesta óvissan í aðdraganda Evrópumótsins var hvort Harpa Þorsteinsdóttir yrði með eða ekki. Það réðst ekki fyrr en nokkrum dögum áður en Freyr tilkynnti hópinn eftir samtal þjálfarans og leikmannsins. Hún var meira en ánægð með þessa ákvörðun þegar hún var mætt á æfingu landslisðins í dag.

„Þetta er alveg geggjað. Í rauninni er mjög þægileg tilfinning að vera loksins komin,“ sagði Harpa við íþróttadeild á æfingunni í Ermelo í dag.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að neðan.

„Þegar ég stend hérna í KSÍ-gallnum finnst mér eins og ég hafi aldrei farið úr honum. Mér líður bara vel. Þetta er búið að vera ótrúlega þægilegt og það eru svo margir sem eru búnir að gera þetta þægilegt fyrir okkur. Mér líður bara ótrúlega vel.“

Harpa var komin á fullt með Stjörnunni í Pepsi-deildinni áður en hlé var gert fyrir EM. Hún var byrjuð að skora sem hún viðurkennir að var mikilvægt fyrir sálartetrið en mörk eru það sem landsliðinu hefur vantað upp á síðkastið.

„Framherjar þrífast á því að skora mörk og það gerði mikið fyrir sjálfstraustið mitt að finna hvar ég stend og að líða vel inni á vellinum áður en ég kom hingað. Það gaf mér mikið en ég fann líka bara svo mikinn stíganda í leikjunum hjá mér sem er frábært,“ segir Harpa.

Auk þess að spila og helst skora mörk þarf Harpa að hlúa að og næra nýfæddan son sinn sem fylgdi henni og föður sínum til Hollands. Þetta var allt látið ganga upp til að láta markamaskínunni líða sem best.

„Fjölskyldan mín er staðsett skammt frá hóteli liðsins. Ég reyni bara að nýta frítímann minn til þess að fara og hitta þau og þess á milli reyni ég að hvíla mig vel og vera með liðinu. Allt starfsfólk KSÍ gerir þetta svo auðvelt og það eru allir af vilja gerðir til að láta þetta ganga upp. Við erum bara ein stór fjölskylda hérna,“ segir Harpa Þorsteinsdóttir.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að neðan.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×