Fótbolti

Freyr og Davíð Snorri: Úr knattspyrnuskóla Leiknis á Evrópumót

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Freyr og Davíð Snorri eru ekki í knattspyrnuskólanum lengur.
Freyr og Davíð Snorri eru ekki í knattspyrnuskólanum lengur. vísir/tom
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, er með góðan vin sinn í þjálfarateymi íslenska liðsins á Evrópumótinu í Hollandi.

Davíð Snorri Jónasson, annar tveggja aðstoðarþjálfara Stjörnunnar í Pepsi-deild karla, er einn af njósnurum Freys en hans hlutverk var að taka út franska liðið og undirbúa stelpurnar okkar fyrir stórleikinn á þriðjudaginn.

„Davíð Snorri var með mjög góðan fund í gær og við erum vel undirbúnar,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir á blaðamannafundi Íslands í Ermelo í dag.

Davíð Snorri, sem er fæddur árið 1986 og er einn af efnilegustu þjálfurum Íslands, gerir meira en bara að njósna því hann er á æfingum Íslands að hjálpa Frey og aðstoðarmanni hans, Ásmundi Guðna Haraldssyni.

Freyr Alexandersson ræðir við stelpurnar á æfingu í gær.vísir/tom

Ólýsanlegt

Freyr og Davíð hafa þekkst lengi en báðir eru úr Breiðholti og uppaldir Leiknismenn. Freyr er fjórum árum eldri en Davíð Snorri en saman tóku þeir við þjálfun karlaliðs Leiknis árið 2013 og komu því upp í Pepsi-deildina ári síðar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Landsliðsþjálfarinn fagnar því eðlilega að vera með góðan mann sem hann þekkir og treystir með sér á mótinu en þeir félagarnir eru komnir langa leið frá Leiknisvellinum í efra Breiðholti.

„Það er ólýsanlegt að vera með honum hérna,“ sagði Freyr á blaðamannafundinum í dag. „Það er alveg meiri háttar gaman. Á æfingunni í gær var þetta bara svona „back to basics“ hjá okkur eins og þegar við vorum saman að þjálfa í knattspyrnuskóla Leiknis.“

„Við þekkjum hvorn annan út og inn. Hann veit nákvæmlega hvað ég vill. Ég veit hvað ég fæ frá honum. Við þekkjum hvorn annan mjög vel. Það er styrkur fyrir okkur að hafa hann og stelpurnar njóta þess líka. Við fáum nýja rödd inn,“ sagði Freyr Alexandersson.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×