Fótbolti

Hallbera: Þetta er meira en við bjuggumst við

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hallbera Gísladóttir á æfingu íslenska liðsins í gær.
Hallbera Gísladóttir á æfingu íslenska liðsins í gær. vísir/tom
Hallbera Guðný Gísladóttir, bakvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, segir að spennustigið hafi verið hátt hjá liðinu eftir ferðadaginn til Hollands á föstudaginn.

Stelpurnar fengu þá svakalegar móttökur í Leifsstöð og magnaða kveðjustund áður en þær komu upp á hótel klukkan ellefu í Hollandi og æfðu svo tólf tímum síðar.

„Spennustigið var hátt á ferðadaginn. Móttökurnar voru frábærar í Leifsstöð og uppi á hóteli. Þetta var meira en við bjuggumst við. En þegar maður er kominn inn á hótel getur maður lokað sig frá því sem er að gerast fyrir utan hótelið. Einbeitingin er mjög góð og allir að búa sig fyrir fyrsta leik,“ segir Hallbera en hún og Fanndís Friðriksdóttir sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í morgun.

Áhuginn á þessu Evrópumóti virðist töluvert meiri en áður og umfjöllunin í aðdraganda mótsins hefur aldrei verið meiri. Hallbera er að fara á sitt annað stórmót og finnur mun en finnst þó ekki eins og fyrri mót hafi gleymst.

„Mér finnst ekki eins og fyrri stórmót hafi gleymst en það sjá allir að þetta er allt annað sem er í gangi núna. Það hefur verið ótrúlega gaman að fara eins og á EM í Svíþjóð en við finnum fyrir því að þetta er töluvert stærra. Áhuginn og umfjöllunin er miklu meiri. Við erum flestar að upplifa nýja hluti,“ segir Hallbera en um 3.000 Íslendingar verða leikjum liðsins sem er miklu meira en áður.

„Það er sérstök tilfinning að spila leik á stórmóti sama hvort það eru 50 Íslendingar í stúkunni eða 3.000. Þetta verður öðruvísi fyrir okkur,“ segir Hallbera og Fanndís tekur undir með henni.

„Við höfum aldrei fengið svona kveðjustund og áður. Það var alveg jafnnýtt fyrir okkur og hinum,“ segir Fanndís Friðriksdóttir.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×