Fótbolti

„Glódís getur spilað með Lyon og Barca“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir flytur á nýjan stað eftir EM.
Glódís Perla Viggósdóttir flytur á nýjan stað eftir EM. vísir/vilhelm
Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, skipti um félagslið í gær þegar sala á henni frá Eskilstuna til Rosengård gekk í gegn.

Rosengård hefur undanfarin ár verið besta liðið í Svíþjóð en Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, varð fjórum sinnum Svíþjóðarmeistari með því.

Sara vann síðast titilinn með Rosengård árið 2015 en þá var liðið einmitt í harðri baráttu við Glódísi Perlu og stöllur hennar í Eskilstuna.

„Þetta var klárt fyrir rúmri viku og hún hefur unnið ásamt sínu fólki mjög faglega að þessu. Við vorum öll meðvituð um það að við vildum klára þetta fyrir þessa viku. Þetta var farið frá henni en það var smá bras á kaupverðinu á milli félaganna eins og gengur og gerist,“ sagði Freyr Alexandersson um félagaskipti miðvarðarins á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.

Hann hefur ekki áhyggjur af því að þessi vistaskipti muni trufla Glódísi Perlu fyrir fyrsta leikinn á móti Frakklandi eða á mótinu í heildina.

Freyr Alexandersson er ánægður fyrir hönd Glódísar.vísir/tom

Getur spilað með þeim bestu

„Þetta truflar hana ekki neitt. Maður veit ekki hvort það sé eitthvað áreiti í Eskilstuna frá liðsfélögum eða þannig en hún er bara brosandi eins og alltaf. Ég er ánægður fyrir hennar hönd. Þetta er það sem hún vildi,“ sagði Freyr.

„Þetta er flottur klúbbur með flottan þjálfara og þær þurfa að hafa Íslendinga í liðinu til þess að vinna titla," sagði Freyr en Rosengård missti af titlinum í fyrra eftir að Sara Björk fór. Þóra B. Helgadóttir varði einnig mark liðsins áður en hún lagði skóna á hilluna.“

Glódísi stóðu fleiri möguleikar til boða en hún ákvað að velja stærsta liðið í Svíþjóð. Freyr er ánægður með þetta skref hjá henni en það er mikilvægara að Glódís er ánægð með þetta.

„Ég hef verið spurður hvort þetta er rétta skrefið því það voru fleiri lið á eftir henni. Það sem skiptir máli er að leikmaðurinn telur þetta rétta skrefið fyrir sig,“ sagði Freyr.

„Ég hef það mikla trú á henni að hún getur spilað fyrir Lyon og Barca og hvað þessi lið öll heita. Það kemur þá bara seinna. Þetta er flott skref fyrir hana og ég er ánægður fyrir hennar hönd,“ sagði Freyr Alexandersson.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×