Enski boltinn

Lacazette: Alltaf dreymt um að spila fyrir Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alexandre Lacazette er mættur til Lundúna.
Alexandre Lacazette er mættur til Lundúna. vísir/getty
Franski framherjinn Alexandre Lacazette varð í dag dýrasti leikmaðurinn í sögu Arsenal þegar Lundúnarfélagið keypti hann fyrir 6,3 milljarða frá Lyon í Frakklandi.

Þessi 28 ára gamli leikmaður, sem á ellefu landsleiki að baki fyrir Frakka, var næstmarkahæstur í frönsku 1. deildinni á síðustu leiktíð með 28 mörk. Hann skoraði í heildina 129 mörk í 275 leikjum fyrir Lyon.

„Arsenal er liðið sem spilar besta fótboltann á Englandi,“ segir Lacazette í viðtali við heimasíðu Arsenal en Skytturnar komust ekki í Meistaradeildina á síðustu leiktíð í fyrsta sinn í 19 ár.

„Mig hefur alltaf dreymt um að spila fyrir Arsenal út af Thierry Henry og fleiri Frökkum sem hafa verið hér. Draumur minn er að rætast.“

„Ég elska félög með mikla sögu og sú staðreynd að knattspyrnustjórinn er búinn að vera hérna lengi sýnir ákveðinn stöðugleika. Það eru margir Frakkar í liðinu þannig það verður auðvelt fyrir mig að aðlagast,“ segir Alexandre Lacazette.

Frakkinn ferðast með Arsenal-liðinu í æfingaferð þess um helgina til Ástralíu þar sem það spilar tvo æfingaleiki. Eftir það heldur Arsenal til Sjanghæ þar sem það mætir Bayern München.


Tengdar fréttir

Lacazette kominn til Arsenal

Enska úrvalsdeildarliðið Arsenal hefur staðfest kaup sín á franska framherjanum Alexandre Lacazette.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×