Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: FH - Víkingur Ó. 0-2 | Ólsarar lyftu sér upp úr fallsæti með fræknum sigri í Krikanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði seinna mark Ólsara í kvöld.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði seinna mark Ólsara í kvöld. vísir/anton brink
Víkingur Ó. lyfti sér upp úr fallsæti með fræknum sigri á FH, 0-2, í Kaplakrika í fyrsta leik 10. umferðar Pepsi-deildar karla í kvöld.

Ólsarar spiluðu gríðarlega agaðan og skipulagðan varnarleik í leiknum og héldu FH-ingum að mestu leyti í skefjum.

Staðan í hálfleik var markalaus. Á 51. mínútu fékk Halldór Orri Björnsson dauðafæri en skaut framhjá marki gestanna.

Fimm mínútum síðar skoraði Kenan Turudija með frábæru skoti fyrir utan teig og kom Víkingi yfir.

Hann lagði svo seinna mark Ólsara upp fyrir Guðmund Stein Hafsteinsson. Lokatölur 0-2, Víkingi í vil.

Með sigrinum komust Ólsarar upp í 10. sæti deildarinnar. FH-ingar eru í því þriðja með 17 stig, þremur stigum frá toppliði Vals sem á tvo leiki til góða.

Af hverju vann Víkingur Ó.?

Leikáætlun Ejubs Purisevic gekk fullkomlega upp í kvöld. Ólsarar voru mjög þéttir fyrir og gáfu fá færi á sér.

Fyrri hálfleikurinn var drepleiðinlegur en það lifnaði yfir leiknum í þeim seinni. FH-ingar byrjuðu hann af ágætis krafti og Halldór Orri hefði átt að koma þeim yfir í upphafi seinni hálfleiks. Hann gerði það ekki og heimamenn fengu það í andlitið þegar þrumufleygur Turudijas söng í netinu.

FH-ingar áttu ágætis kafla strax eftir markið en duttu svo aftur niður á sama plan og í fyrri hálfleik. Ólsarar vörðust aftarlega og leið vel með það. Þegar 11 mínútur voru til leiksloka veitti Guðmundur Steinn Íslandsmeisturunum svo náðarhöggið.

Þessir stóðu upp úr:

Turudija skoraði fyrra mark Víkings og lagði það seinna upp. Hann hefur skorað nokkur falleg mörk síðan hann kom til landsins og markið í kvöld var eitt þeirra.

Cristian Martinez Liberato var öruggur í markinu og varnarlínan fyrir framan hann var góð. Ignacio Heras Anglada er hörku leikmaður, Tomasz Luba spilaði stórvel og Aleix Egea var flottur þegar hann var ekki að gefa FH-ingum hornspyrnur. Víkingsliðið í heild sinni átti góðan dag og liðsheildin var sterk.

Steven Lennon var eini FH-ingurinn með lífsmarki í leiknum. Hann var duglegur að finna sér svæði milli miðju og varnar Ólsara og var alltaf líklegur.

Hvað gekk illa?

Hafi sóknarleikur FH verið slakur gegn ÍBV var hann jafnvel enn verri í leiknum í kvöld. Uppspilið var hægt og stirt og FH-ingar náðu mjög sjaldan að koma róti á vörn Ólsara. FH fékk fjölda hornspyrna en fyrir utan einn skalla frá Kassim Doumbia í fyrri hálfleik kom lítið út úr þeim.

Hvað gerist næst?

FH fær Víking frá Götu í heimsókn á miðvikudaginn í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Seinni leikurinn er svo í Færeyjum þriðjudaginn 18. júlí.

Víkingur á ekki aftur leik fyrr en 17. júlí þegar ÍA kemur í heimsókn í mikilvægum leik í botnbaráttunni.

Einkunnir:

FH (3-4-3): Gunnar Nielsen 4 - Pétur Viðarsson 5, Bergsveinn Ólafsson 5, Kassim Doumbia 5 (74. Atli Viðar Björnsson -) - Þórarinn Ingi Valdimarsson 4 (57. Guðmundur Karl Guðmundsson 4), Emil Pálsson 3, Davíð Þór Viðarsson 4, Böðvar Böðvarsson 4 - Halldór Orri Björnsson 3 (57. Atli Guðnason 4), Steven Lennon 6, Kristján Flóki Finnbogason 4.

Víkingur Ó. (5-4-1): Cristian Martinez Liberato 7 - Alfreð Már Hjaltalín 7, Ignacio Heras Anglada 7, Tomasz Luba 7, Aleix Egea 7, Emir Dokara 7 - Þorsteinn Már Ragnarsson 6, Kenan Turidija 8* (maður leiksins), Gunnlaugur Hlynur Birgisson 6, Kwame Quee 6 (90+3. Egill Jónsson -) - Guðmundur Steinn Hafsteinsson 7 (88. Pape Mamadou Faye -).

Heimir: Þarf að byrja á réttum enda

„Það eru alltaf vonbrigði að tapa á heimavelli. En við höfum bara fengið fjögur stig af 15 hér í Krikanum þannig að þetta hefði kannski ekkert átt að koma á óvart,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir tapið fyrir Víkingi Ó. í kvöld.

Þjálfarinn sagði að sínir menn höfðu orðið undir í baráttunni í leiknum í kvöld.

„Það vantaði bara að byrja á réttum enda. Það þarf að byrja á baráttunni og þá kemur hitt með,“ sagði Heimir.

„Ég held að allir hafi séð að Víkingur kom hingað með frábært skipulag og spiluðu virkilega vel í þessum leik. Við vorum næstbestir í kvöld.“

Sóknarleikur FH var ekki burðugur í leiknum í kvöld og meistararnir sköpuðu sér lítið.

„Þetta var mjög fyrirsjáanlegt,“ sagði Heimir sem þarf að rífa sína menn upp fyrir Evrópuleikinn gegn Víkingi Götu á miðvikudaginn.

„Við þurfum að setjast yfir þetta og laga það sem miður fór. Það er af nógu að taka,“ sagði Heimir að lokum.

Ejub: Þarf meira og minna allt að ganga upp gegn svona liði

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ó., var að vonum kampakátur eftir sigur hans manna á Íslandsmeisturum FH í Kaplakrika í kvöld. Þetta var þriðji leikur FH og Víkings í Krikanum í efstu deild og Ólsarar hafa ekki enn tapað á þessum sterka heimavelli meistaranna.

„Við höfum oft átt góða leiki gegn FH hérna. Umgjörðin skapar kannski stemmningu. Þetta var frábær leikur. Við vorum vel skipulagðir og alltaf inni í leiknum,“ sagði Ejub eftir leik.

„Það gekk nokkurn veginn allt upp. Við vorum agaðir, skipulagðir og lokuðum á það sem skapar hættu. Rosalega margir voru einbeittir allan tímann í kvöld. Á móti svona liði þarf meira og minna allt að ganga upp til að vinna,“ bætti Ejub við.

Varnarleikur Ólsara var virkilega öflugur í leiknum í kvöld og FH-ingar fengu ekki mörg opin færi.

„Við gerðum ráð fyrir því að FH yrði meira með boltann og það kom okkur ekki á óvart. En við náðum að loka á þá og gáfum þeim lítinn tíma þegar þeir komu inn á okkar vallarhelming. Þeir sköpuðu sér ekki mörg færi,“ sagði Ejub.

Allir þrír sigrar Víkings í sumar hafa komið gegn liðum í efstu fjórum sætum Pepsi-deildarinnar. Kann Ejub einhverja skýringu á þessu góða gengi gegn sterkustu liðum deildarinnar?

„Þú reynir alltaf að skipuleggja liðið en svo eru hlutir sem þú ræður ekki við. Síðasti leikur gegn Víkingi R. var nákvæmlega eins skipulagður og þessi en svo gerðum við mistök. Vissulega skipulegg ég leikina gegn sterkustu liðunum aðeins öðruvísi en það er ekki mikill munur,“ sagði Ejub að endingu.

vísir/anton

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira