Enski boltinn

Everton-maður tryggði Englandi fyrsta HM-titilinn frá 1966

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ensku strákarnir fagna sigrinum í dag.
Ensku strákarnir fagna sigrinum í dag. Vísir/Getty
Enska tuttugu ára landsliðið í fótbolta tryggði sér í dag heimsmeistaratitilinn í U20 eftir 1-0 sigur á Venesúela í úrslitaleik heimsmeistaramótsins sem fór fram í Suður-Kóreu. Sumarið 2017 ætlar að verða miklu betra en sumarið 2016.

Þetta er í fyrsta sinn í 51 ár sem Englendingar verða heimsmeistarar í fótbolta eða síðan að England vann HM fullorðinna á heimavelli 1966. Kannski má segja að þeir hafi í dag fengið smá uppreisn æru eftir tapið á móti litla Íslandi á EM í Frakklandi í fyrrasumar.





Everton-maður og Newcastle-maður voru hetjur enska landsliðsins í dag. Dominic Calvert-Lewin, framherji Everton, skoraði sigurmarkið strax í fyrri hálfleik og Freddie Woodman, markvörður Newcastle, varði vítaspyrnu í seinni hálfleik.

Dominic Solanke, sem gengur til liðs við Liverpool 1. júlí, náði ekki að bæta við marki í þessum leik og tryggja sér markakóngstitilinn en Solanke var búinn að skora þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum. Ítalinn Riccardo Orsolini var markakóngur með fimm mörk en Solanke var einn af fimm leikmönnum með fjögur mörk.

Dominic Calvert-Lewin skoraði eina mark leiksins á 35. mínútu þegar hann fylgdi á eftir eigin skoti. Þetta var hans annað marki í keppninni en Calvert-Lewin skoraði einu sinni fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Venesúela fékk vítaspyrnu á 74. mínútu og dómari leiksins stóð við þá ákvörðun eftir að hafa skoðað eftir endursýningu af brotinu. Adalberto Penaranda tók vítið en Freddie Woodman varði frábærlega frá honum.  Newcastle lánaði Woodman til skosks liðsins Kilmarnock á síðustu leiktíð.





Þetta var í fyrsta sinn sem England vinnur þessa keppni en England er tíunda þjóðin sem fagnar sigri á HM U20. Argentínu-menn hafa unnið oftast eða sex sinnum en Brasilíumenn fimm sinnum.  

Enska liðið sló úr Mexíkó og Ítalíu á leið sinni í úrslitaleikinn og skildi Argentínu eftir í riðlinum. Enska liðið er taplaust í sex leikjum sínum á mótinu, vann fimm en gerði eitt jafntefli við Gíneu í öðrum leik sínum í riðlakeppninni.

EVísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×