Erlent

Til rannsóknar hvort Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti. vísir/getty
Robert S. Mueller III, sérstakur saksóknari sem fer með rannsókn á meintum tengslum Rússa við kosningateymi Donald Trump Bandaríkjaforseta sem og rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum, hefur nú tekið til rannsóknar hvort að forsetinn sjálfur hafi gert tilraun til að hindra framgang réttvísinnar.

Segja má að þetta sé ákveðinn vendipunktur í málinu en eins og ítrekað hefur verið fjallað um hefur Trump verið mjög umhugað um það að hann sjálfur sé ekki og hafi ekki verið til rannsóknar. Þannig spurði Trump James Comey, þáverandi forstjóra Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, að því hvort hann væri til rannsóknar en Comey fullvissaði forsetann um það oftar en einu sinni að svo væri ekki.

Að því er fram kemur á vef Washington Post, og haft er eftir embættismönnum, breyttist þessi staða forsetans stuttu eftir að hann rak Comey úr embætti forstjóra FBI þann 9. maí. Aðeins nokkrum dögum síðar hófst rannsókn á því hvort að Trump hefði hindrað framgang réttvísinnar en hann hefur sjálfur sagt að hann hafi meðal annars rekið Comey út af Rússarannsókninni.

Mueller og starfsfólk hans ætlar meðal annars að taka skýrslu af háttsettum aðilum innan Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, NSA, vegna rannsóknarinnar á Trump. Skýrslutökurnar þykja benda til þess að Mueller líti málið alvarlegum augum og að það sé meira en eitthvað orðaskak á milli forsetans og forstjórans sem hann rak.

Hvíta húsið svarar ekki lengur neinum fyrirspurnum varðandi Rússarannsóknina heldur beinir þeim öllum til persónulegs lögfræðings Trump, Marc Kasowitz.

„Leki FBI varðandi forsetann er svívirðilegur, óafsakanlegur og ólöglegur,“ er haft eftir Kasowitz á vef Washington Post þar sem lesa má nánar um málið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.