Arctic Fish, sem áður hét Dýrfiskur, er að leggja yfir þrjá milljarða króna í seiðaeldisstöð sem verður sú stærsta á landinu og sú fyrsta sinnar tegundar. Nýbreytnin felst í því að þetta verður svokölluð endurnýtingarstöð þar sem um 85 prósent af vatninu verður endurnýtt.
„Ein svona stöð, þótt hún sé stór, er að taka inn í mesta lagi 15 lítra á sekúndu. En svo endurnýtir hún það. Það er bara eins og þú sért að láta renna í baðkarið hjá þér. Við endurnýtum það þannig að úr verður flæði sem er svipað og Elliðaárnar eða meira,” segir Sigurður.

„Við erum búnir að vera lengi að vinna í stækkun. Bara í Dýrafirði, - af því að það er verið að tala stundum um að þetta sé að ganga allt of hratt, - þá fór ég með köku um daginn til MAST, af því að það eru fimm ár síðan við erum búnir að vera með áform þar um stækkun, sem ekki er komin í gegn samt sem áður,” sagði Sigurður.
Hann kveðst hins vegar hafa skilning á því að menn vilji fara varlega.
„Já, já. Maður verður náttúrlega að skilja það að hlutirnir þurfa að byggjast upp á ábyrgan hátt. Við skiljum það. En við myndum vilja sjá hlutina ganga hraðar.”