Innlent

Geirfinnsmál í Hæstarétt á allra næstu dögum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Við meðferð málsins fyrir Hæstarrétti árið 1980.
Við meðferð málsins fyrir Hæstarrétti árið 1980. Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Guðmundar- og Geirfinnsmálið fer fyrir Hæstarétt núna í lok vikunnar eða í næstu viku. Þetta segir Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari í málinu. „Það er verið að vinna í skjalagerðinni og svoleiðis,“ segir hann við Fréttablaðið.

Eftir að Davíð Þór hefur sent gögn málsins til Hæstaréttar verður birt fyrirkall og endurupptökubeiðendur eru boðaðir í Hæstarétt. Þar á eftir verður fundinn tími fyrir málið á dagskrá Hæstaréttar, en Davíð Þór býst ekki við því að málflutningur fari fram fyrr en í vetur.

Davíð Þór verður væntanlega skipaður dómari við Landsrétt sem tekur til starfa við næstu áramót. Hann segir ekkert liggja fyrir um það hvaða áhrif sú skipan hefur á stöðu hans sem setts saksóknara. „Það verður bara að taka þann slag þegar það liggur endanlega fyrir,“ segir Davíð Þór en segist sjálfur ekki vera ómissandi frekar en nokkur annar.

Endurupptökunefnd komst að þeirri niðurstöðu fyrr á þessu ári að mál fimm af sex sakborningunum í Guðmundar- og Geirfinnmálinu skyldi taka upp aftur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×