Erlent

Vakta miðborg Cardiff með sérstökum myndavélum vegna úrslitaleiksins

Atli Ísleifsson skrifar
Hámarksviðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir eftir hryðjuverkaárásina í Manchester fyrir tæpum tveimur vikum.
Hámarksviðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir eftir hryðjuverkaárásina í Manchester fyrir tæpum tveimur vikum. Vísir/afp
Yfirvöld í Cardiff í Wales hafa gripið til fjölda öryggisráðstafana í tengslum við úrslitaleik Meistaradeildar karla milli Real Madrid og Juventus sem fram fer í borginni í kvöld.

Hámarksviðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir eftir hryðjuverkaárásina í Manchester fyrir tæpum tveimur vikum.

Um 340 þúsund manns búa í borginni og eiga borgaryfirvöld von á 170 þúsund gestum til borgarinnar vegna leiksins.

BBC greinir frá því að fjölda gatna í miðborginni verði lokað og hefur fólk verið hvatt til að skilja bílinn eftir heima. Sömuleiðis hefur fólk verið hvatt til að sleppa því að nýta sér almenningssamgöngukerfi borgarinnar nema nauðsyn þyki til.

Um tvö þúsund lögreglumenn verða á ferli í miðborg Cardiff og segir Wales Online frá því að um sé að ræða umfangsmestu öryggisaðgerðir í tengslum við einstakan íþróttaviðburð í sögu Bretlands.

Lögregla hefur komið upp sérstökum myndavélum víðs vegar um miðborgina sem geta greint andlit fólks úr gagnagrunnum lögreglu.

Sömuleiðis verður þakinu á Millenium-leikvanginum lokað af ótta við mögulegar drónaárásir.

Öryggisgæsla við inngang verður sérstaklega ströng þar sem bannað verður að fara inn með bakpoka eða handtöskur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×