Erlent

Einn árásarmannanna í London birtist í heimildarmynd um öfgamenn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Khuram Butt birtist í heimildarmyndinni The Jihadist Next Door.
Khuram Butt birtist í heimildarmyndinni The Jihadist Next Door. Skjáskot/Sky News
Einn árásarmannanna, sem varð 7 manns að bana á London Bridge á laugardagskvöld, birtist í heimildarmynd bresku sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4 um múslima er aðhylltust öfgastefnu.

Khuram Butt sést bregða fyrir í heimildarmyndinni The Jihadis Next Door, eða Öfgamennirnir í næsta húsi, en myndin fylgir eftir mönnum er breiddu út öfgastefnu innan Íslam í Bretlandi. Þá voru tengsl mannanna í heimildarmyndinni við þekktan öfgaprédikara, Anjem Choudary, sérstaklega rannsökuð.

Í myndbrotinu sést lögregla hafa afskipti af Butt, sem einnig var þekktur undir nafninu Abu Zaitun, og félögum hans.

Í frétt Sky News fréttastofunnar segir að Butt hafi komið til Bretlands sem barn í fylgd pakistanskra foreldra sinna er fjölskyldan sótti um hæli. Hann hafði verið undir eftirliti lögreglu í Bretlandi. Nágrannakona Butt í Barking í austurhluta London segir hann iðulega hafa starað reiðilega á konur í hverfinu þegar þær hjóluðu fram hjá honum.

Rachid Redouane, hinn árásarmaðurinn sem hefur verið nafngreindur, hefur ekki komið við sögu lögreglu áður. Talið er að hann hafi búið í Dublin, höfuðborg Írlands, á árunum 2014-2016 og þá er hann einnig sagður hafa átt skoska eiginkonu.

7 létust og 48 særðust í hryðjuverkaárásinni sem framin var á London Bridge og við Borough Market í London á laugardagskvöldið. Þrír árásarmenn, tveir þeirra Butt og Redouane, voru skotnir til bana af lögreglu.


Tengdar fréttir

Árásarmennirnir í London nafngreindir

Lögregluyfirvöld í London hafa gefið út nöfn tveggja af þremur árásarmönnum sem skotnir voru til bana í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á London Bridge á laugardagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×