Erlent

May segir mannréttindi ekki munu stoppa baráttuna gegn hryðjuverkum

Kjartan Kjartansson skrifar
Theresa May boðar afnám mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum.
Theresa May boðar afnám mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, er tilbúin að afnema mannréttindalög til að auðvelda stjórnvöldum að beita sér gegn meintum hryðjuverkamönnum. Markmiðið er að auðvelda brottvísanir fólks sem er grunað um hryðjuverkastarfsemi og herða eftirlit með því þegar ógn er talin stafa af því en ekki eru næg gögn til að ákæra það.

Lengri fangelsisdómar fyrir þá sem eru sakfelldir fyrir brot tengd hryðjuverkum eru einnig á meðal þess sem May boðar nú þegar aðeins rúmur einn og hálfur sólahringur er þar til Bretar kjósa í þingkosningum. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur gagnrýnt May fyrir að hafa fækkað lögreglumönnum um 20.000 þegar hún var innanríkisráðherra í kjölfar hryðjuverkanna í Manchester og London.

„Ég meina líka að við gerum meira til að skerða frelsi og ferðir þeirra sem eru grunaðir um hryðjuverkastarfsemi þegar við höfum nægjanlegar sannanir til að vita að þeir séu ógn en ekki nægar til að ákæra þá fyrir dómi. Ef mannréttindalög stöðva okkur í því, þá munum við breyta þeim lögum til að við getum það,“ segir May samkvæmt frétt The Guardian.

Hefur átt í vök að verjast

Orð May hafa vakið harða gagnrýni Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata. Flokkur Corbyn sakar íhaldsmenn um meiriháttar stefnubreytingu á lokametrum kosningabaráttunnar og Tim Farron, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, segir May hrinda af stað „kjarnorkukapphlaupi“ í hryðjuverkalögum.

„Það sem eina sem hún vill gera er að draga úr frelsi, ekki hryðjuverkum,“ segir Farron samkvæmt BBC

Íhaldsflokkurinn hefur áður lofað því að yfirgefa ekki Mannréttindasáttmála Evrópu á næsta þingi. Þingmenn hans gætu hins vegar reynt að breyta breskum mannréttindalögum eftir að Bretar ganga úr Evrópusambandinu.

Kosningabaráttan hefur að miklu leyti snúist um öryggismál eftir hryðjuverkin í Manchester og á Londonbrúnni. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að Íhaldsflokkur May nái ekki hreinum meirihluta á þingi þrátt fyrir að hann hafi framan af mælst með afgerandi forystu á Verkamannaflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×