Erlent

Sköllóttir karlmenn sagðir í hættu staddir

Kjartan Kjartansson skrifar
Samkvæmt hjátrú í austanverðri Afríku er gull að finna í höfði sköllóttra manna.
Samkvæmt hjátrú í austanverðri Afríku er gull að finna í höfði sköllóttra manna. Vísir/Getty
Lögreglan í Mósambík hefur varað sköllótta karlmenn við því að þeir gætu verið í hættu eftir hrinu morða í landinu. Mennirnir hafa verið drepnir og afhöfðaðir, líklega í nafni hjátrúar.

„Trúin er að það sé gull í höfði sköllóttra manna,“ segir Afonso Dias, lögreglustjóri í Zambezia-héraði við breska ríkisútvarpið BBC.

Sú hugmynd er talin runnin undan rifjum galdralækna sem ásælast höfuðin, að sögn lögreglu. Auðtrúa fólk trúir því að sköllóttir menn séu ríkir.

Tveir menn hafa verið handteknir vegna morða á sköllóttum mönnum. Eitt fórnarlambanna var afhöfðað og innyfli fjarlægð. Haft er eftir talsmanni öryggissveita að nota hafi átt innyflin í helgiathöfnum sem var ætlað að gera viðskiptavini galdralækna í Tansaníu og Malaví ríka.

Albínóar hafa einnig sótt ofsóknum af þessu tagi í austanverðri Afríku. Fjöldi þeirra hefur verið drepinn og líkamshlutar þeirra notaðir í „lukkugripi“ og „töfradrykki“ galdralækna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×