Erlent

Trump segir að honum verði þakkað fyrir að hafa rekið Comey

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Demókratar og repúblikanar munu þakka Donald Trump fyrir að hafa losað sig við James Comey, yfirmann FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, þegar umræðan um brottreksturinn hefur fjarað út. BBC greinir frá.

Þetta er mat Trump sem tísti um brottreksturinn í dag þar sem hann varði ákvörðun sína um að reka Comey. Hvíta húsið segir Comey meðal annars hafa verið rekinn vegna þess hvernig hann meðhöndlaði rannsókn FBI á tölvupóstum Hillary Clinton.

Brottreksturinn þykir hafa komið eins og þruma úr heiðskýru lofti og hélt Comey meðal annars sjálfur í fyrstu að um hrekk væri að ræða.

FBI er með starfsmenn forsetaframboðs Donald Trump til rannsóknar vegna mögulegs samstarfs þeirra við yfirvöld í Rússlandi við að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra. Í ljósi þess þykir brottrekstur Comey afar umdeildur og hefur hann verið harðlega gagnrýnur, þá sérstaklega af demókrötum.

Comey sjálfur hefur reyndar einnig verið umdeildur undanfarna mánuði og hefur Hillary Clinton meðal annars sakað hann um að hafa kostað sig forsetaembættið með því að greina frá rannsókn á tölvupóstum Clinton, skömmu fyrir kosningar.

Virðist Trump vísa til þess í tístum sínum þar sem hann segir að demókratar hafi lengi vel gagnrýnt Comey harðlega, en séu skyndilega núna leiðir yfir því að hann hafi verið rekinn.

Segir Trump að þeir, ásamt repúblikönum, muni þakka sér fyrir að hafa rekið Comey enda ætli Trump sér að fá einhvern til starfa sem yfirmaður FBI sem muni vinna töluvert betra starf.

Eftir brottrekstur Comey hafa raddir sem kalla eftir því að skipaður verði sérstakur rannsakandi til þess að rannsaka mögulega afskipti Rússa af forsetakosningunum orðið háværari. Meðal þeirra sem hafa tekið undir það er repúblikaninn John McCain sem segir að sérstök þingnefnd þurfi að rannsaka málið.


Tengdar fréttir

Comey hélt að brottreksturinn væri hrekkur

James Comey, sem rekinn var sem yfirmaður FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, í gær af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hélt í fyrstu að fregnir af brottrekstrinum væri hrekkur. Hann var staddur í Los Angeles þegar fregnirnar bárust honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×