Erlent

Neyðarástand vegna kólerufaraldurs

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Spítalar í Sana'a, höfuðborg Jemens, eru yfirfullir.
Spítalar í Sana'a, höfuðborg Jemens, eru yfirfullir. vísir/epa
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Jemen eftir að kólerufaraldur braust út. Tæplega 200 hafa látist á síðustu tveimur vikum og á níunda þúsund hafa smitast af sjúkdómnum.

Jemen er alls ekki í stakk búið til að takast á við faraldur af þessu tagi enda landið lamað eftir borgarastyrjöld síðustu tveggja ára. Þar hafa uppreisnarmenn húta, studdir af Írönum, barist gegn stjórnvöldum sem njóta stuðnings Sádi-Araba.

Í yfirlýsingu frá heilbrigðisyfirvöldum kom fram að þeim væri ókleift að halda faraldrinum í skefjum. Kölluðu þau eftir því að alþjóðasamfélagið kæmi til bjargar. Þá hefur heilbrigðisstarfsfólk í höfuðborginni Sana’a sagt að það ráði ekki við þann gríðarlega fjölda sjúklinga sem bætist við á degi hverjum.

„Við setjum fjóra sjúklinga í hvert rúm og höfum komið auka rúmum fyrir í tjöldum og undir trjám í garðinum,“ segir Nabeel aj Najjar, sjúkrahússtarfsmaður í Sana’a.

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) kom fram að tæplega 45 prósent spítala landsins væru í starfhæfu ástandi. Þá áætlar stofnunin að um 70 prósent vanti upp á nauðsynleg lyf. Að auki eiga tveir þriðju hlutar íbúa ekki greiðan aðgang að hreinu drykkjarvatni.

Frá því að stríðið braust út í mars 2015 hafa rúmlega 10 þúsund manns látið lífið. Milljónir til viðbótar eru á vergangi eða glíma við skort vegna styrjaldarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×