Innlent

Úrskurður mannanafnanefndar: Bæði karlar og konur mega bera nafnið Karma

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þessi snjallkynslóðarsystkin eru að vísu ekki íslensk en væru þau það gætu þau bæði heitað Karma.
Þessi snjallkynslóðarsystkin eru að vísu ekki íslensk en væru þau það gætu þau bæði heitað Karma. vísir/getty
Tólf ný nöfn hafa bæst á íslenska mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd féllst á umsóknir þess efnis í nýliðnum mánuði. Meðal tíðinda má nefna að Karma er nú bæði kvenmannsnafn og karlmannsnafn.

Karma bætist þar með í hóp nafna á borð við Blær og Auður. Fallist var á eiginnafnið Karma sem karlmannsnafn af nefndinni í fyrra.

Þá var einnig fallist á millinafnið Nínon þrátt fyrir að nefndin teldi að nafnið uppfyllti ekki skilyrði laga um mannanöfn. Var það gert með hliðsjón af niðurstöðu héraðsdóms frá apríl 2015 þar sem ákvæði laganna var talið brjóta í bága við stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu. Í því máli hafði einstaklingi verið hafnað um að bera millinafnið Gests. Einnig var fallist á millinafnið Kaldbak.

Nefndin féllst með semingi á eiginnafnið Zophía með hliðsjón af því að í manntölum árið 1835 og 1840 hefði nafninu brugðið fyrir á tveimur konum í Skagafirði. Þótti sá ritháttur því hefðaður í íslenskt mál. Þá féllst nefndin á kvenmannsnöfnin Snæfríð, Randí, Ýrún og Estel.

Tvíliðaða nafnið Jónbjarni þótti falla að íslensku málkerfi en nefndin minntist á í úrskurði sínum um það að þríliðuð nöfn, á borð við Guðmundpáll, væru bönnuð. Önnur samþykkt eiginnöfn karla voru Andrean, Jonni og Annmar.


Tengdar fréttir

Eir leyft fyrir karla og konur

Níu nöfn bættust á mannanafnaskrá í liðnum mánuði en einni nafnumsókn var hafnað. Úrskurðir mannanafnanefndar voru birtir í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×