Erlent

Útlit fyrir sigur Ástrala gegn tóbaksrisunum

Markmið Ástrala með varnaðarmyndum á sígarettupökkunum er að reyna að benda á heilsutjón af völdum reykinga.
Markmið Ástrala með varnaðarmyndum á sígarettupökkunum er að reyna að benda á heilsutjón af völdum reykinga. vísir/epa
Ákvörðun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, um að fallast á áströlsk lög um staðlaða ólífugræna sígarettupakka með varnaðarorðum og myndum gegn reykingum kann að leiða til þess að fleiri lönd fylgi í fótspor Ástralíu og taki upp slíkar pakkningar.

Frá árinu 2011 hafa sígarettupakkar í Ástralíu verið með áberandi myndum af heilsufarslegu tjóni sem reykingar geta valdið. Nafn framleiðanda hefur verið í smáu letri á pökkunum. Tóbaksrisarnir voru afar ósáttir og sendu Kúba, Hondúras, Dóminíska lýðveldið og Indónesía Alþjóðaviðskiptastofnuninni kvörtun. Fullyrtu framleiðendur að bann Ástrala gerði lítið úr vörumerkjum þeirra og hindraði frjálsa verslun.

Eftir nokkurra ára baráttu og hótanir um kröfur um himinháar skaðabætur virðist sem tóbaksiðnaðurinn hafi tapað. Fréttaveitan Bloomberg greinir frá ákvörðun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem sögð er verða kynnt opinberlega í júlí. Líklegt þykir að nokkrir tóbaksframleiðendur muni áfrýja ákvörðuninni.

Áströlsk yfirvöld hafa kvartað undan því hvað afgreiðsla málsins hefur tekið langan tíma. Það hafi meðal annars dregið úr áhuga stjórnvalda í öðrum löndum á að banna tóbaksumbúðir sem sýna einhvers konar glansmynd af reykingum. Nú þykir sennilegt að fleiri banni hefðbundna sígarettupakka.

Markmið Ástrala með varnaðarmyndum á sígarettupökkunum er meðal annars að reyna að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja. Á sígarettupökkunum eru nærmyndir sem sýna til dæmis krabbamein í munni, augnskemmdir, öndunarfærasjúkdóma og æðasjúkdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×