Innlent

Niðurstöður samræmdra prófa: Reykvískir nemendur standa sig best en samt verr en áður

Sæunn Gísladóttir skrifar
Nemendur í Hagaskóla stóðu sig best að meðaltali í ensku og íslensku í tíunda bekk.
Nemendur í Hagaskóla stóðu sig best að meðaltali í ensku og íslensku í tíunda bekk. Fréttablaðið/Vilhelm
Samkvæmt niðurstöðum úr samræmdum könnunarprófum versnar niðurstaða nemenda í Reykjavík og Suðurkjördæmi í öllum fögum milli ára. Niðurstöðurnar sýna að bilið er enn að breikka milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins að sögn forstjóra Menntamálastofnunar.

Prófin voru lögð fyrir nemendur í 9. og 10. bekk í marsmánuði um land allt. Niðurstöður prófanna eru gefnar á kvarða þar sem 30 er meðaltal. Stigaskor skólanna frá 29 til 31 þykir innan meðaltals en allt fyrir neðan 28 þykir slæm útkoma. Allt fyrir ofan 32 þykir góð útkoma.

Samkvæmt niðurstöðunum standa nemendur í Suðvesturkjördæmi að meðaltali best í íslensku og skoruðu 31,1 á kvarðanum, en nemendur í Suðurkjördæmi verst og skoruðu 28,4 að meðaltali. Nemendur í Suðvesturkjördæmi stóðu best í stærðfræði og skoruðu 31,7 en nemendur í Norðvesturkjördæmi stóðu sig verst og skoruðu 26,7 að meðaltali. Nemendur í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi stóðu jafnfætis í ensku og skoruðu 31,4 en þar stóðu nemendur í Norðausturkjördæmi verst og skoruðu 26,9 að meðaltali.

Milli áranna 2015 og 2017 versnaði niðurstaða nemenda í öllum fögum í Reykjavík og Suðurkjördæmi, en nemendur í Suðvesturkjördæmi bættu sig í öllum fögum. Eftir stendur að nemendur af höfuðborgarsvæðinu standa sig best, líkt og fyrri ár.

Sé litið til einstakra skóla stóð 10. bekkur í Hagaskóla best í íslensku og ensku en tíundi bekkur í Garðaskóla best í stærðfræði. „Ef maður horfir á dreifinguna milli landshluta þá virðist bilið milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis halda áfram að breikka,“ segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar.
„Við þurfum að horfa á þennan mun út frá aðstöðu. Á landsbyggðinni eru skólar sem fá kannski ekki jafn góða þjónustu og stuðning eins og á höfuðborgarsvæðinu, smærri sveitarfélög sem eiga erfiðara með að fjármagna slíkan stuðning. Við sjáum líka að þar sem er hátt hlutfall af nemendum af erlendum uppruna þá bitnar það á einkunnum,” segir Arnór.

„Eins erum við að sjá það í PISA-niðurstöðum að við erum ekki að standa okkur nógu vel varðandi menntun nemenda af erlendum uppruna.“

Arnór er þó vongóður um að vinna Menntamálastofnunar m.a. í gegnum lestrarátak, muni skila sér í bættum einkunnum. 9. og 10. bekkir um allt land tóku prófin samtímis í fyrsta og eina skiptið í ár. Prófin hafa verið haldin að hausti í tíunda bekk en voru færð til vors í níunda bekk, samkvæmt tillögu Menntamálastofnunar. Á næsta ári þreytir eingöngu níundi bekkur prófið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×