Erlent

Dularfull sprunga í einum stærsta jökli Grænlands

Kjartan Kjartansson skrifar
Nýja sprungan í Petermann-jöklinum á norðvesturströnd Grænlands.
Nýja sprungan í Petermann-jöklinum á norðvesturströnd Grænlands. ljósmynd/NASA

Vísindamenn hafa komið auga á nýja sprungu sem hefur myndast í miðju eins stærsta skriðjökuls Grænlands. Gríðarlega stórir ísjakar brotnuðu af jöklinum árin 2010 og 2012. Sprungan gæti verið merki um að sambærilegur viðburður sé í nánd.

Petermann-jökullinn á norðvesturströnd Grænlands er einn alstærsti skriðjökull íshellunnar á Grænlandi. Brotin sem kelfðust úr jöklinum árin 2010 og 2012 voru margfalt stærri en Manhattan-eyja.

Fyrstu merkin um nýju sprunguna sáust á gervihnattamyndum af Grænlandsjökli nýlega en vísindamenn NASA náðu nærmyndum af henni á föstudaginn langa.

Petermann-jökullinn skríður út í fjörð sem er dýpri en Miklagljúfur. ljósmynd/NASA

Sprungan þykir óvenjuleg þar sem hún virðist hafa myndast í miðri íshellunni. Venjulega myndast sprungur af þessu tagi í hliðum jökla. Ef sprungan stækkar gæti hún tengst annarri nálægri sprungu í jöklinum sem nær yfir nær alla íshelluna.

Ekki er vitað hvað olli því að sprungan myndaðist en þeir sérfræðingar sem Washington Post ræddi við í síðustu viku sögðust telja að hún gæti þýtt að sambærilegt brot úr jöklinum og átti sér stað 2010 og 2012 sé í vændum. Það gæti jafnvel átt sér stað í sumar.

Jaxon Box, prófessor við Jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands, segir að brotni jökullinn eftir þessum sprungum gæti íseyjan sem þá fer af stað verið allt að 130 til 180 ferkílómetrar að stærð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.