Erlent

Vilja fella Bandaríkin með kjarnorkueldi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flugmóðurskipið Carl Vinson.
Flugmóðurskipið Carl Vinson. vísir/epa
Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu (KCNA) greindi í gær frá því að Bandaríkjamenn mættu eiga von á gagnaðgerðum eftir að Carl Vinson-flotadeild bandaríska sjóhersins var siglt upp að Kóreuskaga. Eru skipin þar staðsett til að bregðast við eldflaugatilraunum Norður-Kóreu.

„Við grátbiðjum aldrei um frið en við munum beita hörðustu gagnaðgerðum gegn þessum ögrandi aðgerðum Bandaríkjamanna. Við munum verja okkur með miklu vopnaafli,“ segir í frétt KCNA sem birt var á ensku. Vísað var í starfsmann utanríkisráðuneytis ríkisins.

„Við munum sjá til þess að Bandaríkjamenn beri ábyrgð á hörmulegum afleiðingum sem munu verða vegna svívirðilegra gjörða þeirra,“ segir enn fremur.

Í kóreskri útgáfu fréttarinnar kemur fram að ríkið muni ekki missa af tækifærinu til þess að fella heimsveldið með „réttlátum eldi kjarnorkunnar“.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tjáði sig um Norður-Kóreu á Twitter í gær. Sagðist hann hafa látið Xi Jinping, forseta Kína, vita að væntanlegur fríverslunarsamningur ríkjanna yrði betri ef Kínverjar „hjálpuðu til við að leysa Norður-Kóreuvandann“. Trump fundaði með Xi í síðustu viku.

„Norður-Kórea er að leita eftir vandræðum. Ef Kínverjar ákveða að hjálpa væri það frábært. Ef ekki þá munum við leysa málin án þeirra!“ segir í tísti Trumps frá því í gær.

Þá greindu erlendir miðlar frá því í gær að kínverski herinn hefði sent 150.000 hermenn að landamærunum við Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×