Erlent

Íslendingur í Rússlandi: Hending réði því að hafa ekki verið á lestarstöðinni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mikil sorg ríkir í Rússlandi.
Mikil sorg ríkir í Rússlandi. vísir/afp
Hending réði því að Ásgeir Halldórsson, sem búsettur er í Sankti Pétursborg, var ekki um borð í lest í neðanjarðarlestarstöðinni í borginni í dag, þar sem sprengjuárás var gerð. Hann segist fullviss um að yfirvöld hafi vitað að árás væri yfirvofandi.

„Þeir hafa átt von á þessu, held ég alveg örugglega.  Það er alltaf leitað í öllum töskum og ég held meira að segja að þeir hafi stoppað tvo og aftengt tvær sprengjur,“ segir Ásgeir, sem hafði viðkomu á pósthúsi á leið sinni á lestarstöðina í dag. Hann segir að ef hann hefði ekki komið þar við hefði hann verið inni á lestarstöðinni þegar árásin var gerð.

„Ég held það. Hefði allavega verið í stiganum eða eitthvað. Ég fer í metro-inn tvisvar, þrisvar á dag á þessari stöð,“ segir hann.

Handtökuskipun gefin út á hendur tveimur

Minnst tíu létust í árásinni og tugir særðust. Hún var gerð á Sennaya Ploshchad lestarstöðinni sem er skammt frá Vetrarhöllinni, en sprengjan var skilin eftir í lestinni í skjalatösku. Tveggja manna er leitað í tengslum við árásina en þeir eru sagðir hafa sést á öryggismyndavélum skilja eftir tösku í lestinni.

Í fyrstu var talið að sprengjurnar hafi verið tvær en síðar staðfestu yfirvöld að um eina sprengju, sem var full af sprengjubrotum, hafi verið að ræða.

Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk og hefur viðbúnaður við opinbera staði í St. Pétursborg og Moskvu verið efldur. Enginn hefur lýst ábyrgð á árásinni en Rússar en liðsmenn Íslamska ríkisins hafa hótað árásum í landinu.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti var í heimsókn í heimaborg sinni St. Pétursborg þegar sprengjan sprakk. Hann var strax upplýstur um stöðu mála og fluttur úr borginni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×