Erlent

Mannfall í sprengjuárás í Sankti Pétursborg

Samúel Karl Ólason skrifar
Sprengjan er sögð hafa sprungið í lestarvagni á milli tveggja lestarstöðva.
Sprengjan er sögð hafa sprungið í lestarvagni á milli tveggja lestarstöðva. Vísir/AFP
Minnst tíu eru látnir og um 50 eru særðir eftir sprengingu í neðanjarðarlestarkerfi Sankti Pétursborgar, skömmu fyrir hádegi í morgun að íslenskum tíma. Lestarkerfi borgarinnar hefur verið lokað, en heimildir Interfax fréttaveitunnar segja sprengjubrot hafa verið í sprengjunni.

Ríkissaksóknari Rússlands segir að um hryðjuverkaárás sé að ræða. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Ekki sjálfsmorðsárás

Í fyrstu var talið að um tvær sprengingar hefði verið að ræða, en nú hefur verið staðfest að hún var einungis ein. Sprengjan er sögð hafa sprungið í lestarvagni á milli tveggja lestarstöðva. Ekki er um sjálfmorðsárás að ræða, heldur mun sprengjan hafa verið skilin eftir um borð í lestinni í skjalatösku.

Lestarstjórinn er sagður hafa bjargað mannslífum með því að halda ferð lestarinnar áfram að næstu lestarstöð.

Vísir/GraphicNews
Interfax fréttaveitan segir að maðurinn sem skyldi sprengjuna eftir sjáist á öryggisupptökum.

Ríkisstjóri Pétursborgar hélt því fram fyrr í dag að um fimmtíu væru særðir. Gagnhryðjuverkanefnd Rússlands, ssagði svo seinna að níu hefðu dáið og rúmlega tuttugu særst. Nú er talan aftur komin upp í um 50 og tala látinna í tíu.

Þá var einnig staðfest að önnur sprengja hefði fundist og hún hefði verið aftengd.

Vladimir Putin, forseti Rússlands, var í Pétursborg í morgun. Hann segir of snemmt að fullyrða um árásina og að rannsókn muni skoða alla möguleika.

Öryggi í Moskvu hefur verið aukið í kjölfar árásarinnar í Pétursborg.

Utanríkisráðuneytið hefur haft samband við þá Íslendinga sem vitað er að séu búsettir í Pétursborg. Þeir eru allir heilir á húfi, en ekki er vitað til þess að Íslendingar séu á ferð þar.

Lengi glímt við hryðjuverk

Rússar eru ekki ókunnugir hryðjuverkaárásum, sem flestar hafa verið framdar af aðskilnaðarsinnum frá Téténíu. Þá hefur Íslamska ríkið í Téténíu heitið árásum á Rússland, en fjölmargir rússar gengu til liðs við ISIS.

Árið 2010 dóu 38 manns þegar tvær konur sprengdu sig í loft upp í neðanjarðarlestum í Moskvu.

Árið 2004 dóu 330 manns, þar af um helmingurinn börn, þegar vígamenn tóku yfir skóla í suðurhluta Rússlands. Árið 2002 dóu 120 þegar lögregla réðst til atlögu gegn vígamönnum í leikhúsi í Moskvu.



Myndir af þessum manni eru í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum, en það hefur ekki verið staðfest að hann hafi komið að árásinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×