Fótbolti

Fékk fullt af jákvæðum svörum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Þetta var mestmegnis jákvætt. Þetta var nokkuð kaflaskiptur leikur en mér fannst við spila seinni hálfleikinn mjög vel þegar við gátum farið aftur að pressa,“ sagði landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson eftir 1-1 jafn­tefli Íslands og Noregs á Algarve-mótinu í Portúgal í gærkvöldi.

„Það var erfiður 20 mínútna kafli í fyrri hálfleik þar sem við þurftum að fara í lágpressu. Það nýttist samt vel, við þurftum að æfa þær færslur og getum lært hvernig maður heldur í boltann þegar þú vinnur boltann í lágpressu. Við vorum í smá vandræðum með það. Ég fékk fullt af jákvæðum svörum og nokkrar einstaklingsframmistöður litu út fyrir að vera mjög góðar.“

Byrjunin á leiknum var ekki gæfuleg hjá íslenska liðinu því strax á 4. mínútu kom Ada Hegerberg, besta knattspyrnukona Evrópu í fyrra, Noregi yfir. En íslensku stelpurnar sýndu mikinn styrk og aðeins fjórum mínútum eftir mark Hegerbergs var staðan orðin jöfn, 1-1.

Elín Metta Jensen fór þá illa með varnarmann Noregs og sendi fyrir á Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur sem skoraði af stuttu færi. Þetta var sjötta landsliðsmark Gunnhildar en hún heldur áfram að sanna mikilvægi sitt fyrir íslenska liðið.

„Þær skoruðu gott mark en við vorum búnar að tala um að þetta væri þeirra leikur; þetta battaspil eftir langan bolta. Og þegar boltinn dettur svona fyrir besta framherja í heiminum klárar hún það,“ sagði Freyr um mark norska liðsins.

„Eftir markið stigu leiðtogarnir upp og stöppuðu stálinu í liðið og við fórum bara af stað. Við áttum góða sókn og svo góða sókn sem skilaði marki. Það var mjög jákvætt. Þetta var frábært mark; mjög sterkt einstaklingsframtak hjá Elínu og frábært hlaup inn í teiginn og vel klárað hjá Gunnhildi.“

Freyr stillti upp nokkuð ungu og óreyndu byrjunarliði í leiknum í gær. Meðal þeirra sem fékk tækifærið var Eyjakonan Sigríður Lára Garðarsdóttir sem lék aðeins sinn annan landsleik í gær. Landsliðsþjálfarinn kvaðst ánægður með frammistöðu hennar.

„Mér fannst hún heilt yfir standa sig með glæsibrag. Hún var hrikalega öflug í návígi, bæði á grasinu og í loftinu, og las hinn svokallaða seinni bolta mjög vel. Hún hefði oft á köflum getað gert betur með boltann en það kemur þegar hún finnur betri takt með liðinu. Hún má vera stolt af sinni frammistöðu,“ sagði Freyr um Sigríði Láru sem var hluti af líkamlega sterkri miðju, „sláttuvélarmiðju“ eins og landsliðsþjálfarinn komst að orði fyrir leik.

„Ég held það hafi virkað vel. Það sem klikkaði í fyrri hálfleik var áherslan mín í hápressu. Ég hefði viljað að leikmennirnir hefðu lesið það og leyst sjálfar en við löguðum það í hálfleik. Það var ekki miðjunni að kenna að við náðum ekki að hápressa, það var útfærslan mín,“ sagði Freyr.

Það eina sem skyggði á fína frammistöðu íslenska liðsins í gær voru meiðsli Söndru Maríu Jessen. Akureyringurinn lenti í samstuði eftir um 20 mínútna leik og var hún í kjölfarið borin sárþjáð af velli. Aðspurður sagðist Freyr ekki vita hvers eðlis meiðslin væru en þetta hefði ekki litið vel út.

Næsti leikur Íslands er gegn Japan á morgun.


Tengdar fréttir

Sandra María send á sjúkrahús

Freyr Alexandersson segir að Sandra María Jessen hafi verið send á sjúkrahús í myndatöku vegna meiðslanna sem hún varð fyrir í leik Íslands og Noregs á Algarve-mótinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×