Erlent

Erdogan líkir þýskum stjórnvöldum við nasista

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Nordicphotos/AFP
Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, líkti þýskum stjórnvöldum við nasista í dag, eftir að þau bönnuðu fjöldasamkomur skipulögð af Tyrkjum í Þýskalandi, til stuðnings breytinga á stjórnarskrá Tyrklands sem myndu gefa Erdogan meiri völd. BBC greinir frá.

Rúmlega 1,4 milljónir Tyrkja búa í Þýskalandi og geta því kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni en verði breytingar á stjórnarskránni samþykktar munu völd forsetans aukast á kostnað þingsins.

„Ég hélt að það væri langt síðan að þýsk stjórnvöld hættu að beita aðferðum nasista. Við höfum greinilega haft rangt fyrir okkur. Aðferðir ykkar eru ekkert frábrugðnar aðferðum nasista fortíðarinnar.“

Ummælin lét Erdogan falla á fjöldasamkomu í Istanbúl á sunnudaginn var. Erdogan hefur verið harðlega gagnrýndur á alþjóðavettvangi að undanförnu fyrir aðgerðir sínar í kjölfar misheppnaðs valdaráns í júlí á seinasta ári. Þar á meðal hafa hundruðir þúsunda fjölmiðlamanna sem taldir eru pólítískir andstæðingar Erdogan verið fangelsaðir.

Þar á meðal er einn blaðamaður þýska fréttablaðsins Die Welt, sem er þýskur en að uppruna frá Tyrklandi. Aðgerðir þýskra stjórnvalda komu í kjölfar þess að sá maður var fangelsaður en Erdogan hefur sagt að viðkomandi blaðamaður sé þýskur útsendari og sakað Þjóðverja um að „aðstoða og skjóta skjólhúsi yfir hryðjuverkamenn.“ Þýsk stjórnvöld hafa harðneitað þeim ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×