Enski boltinn

Koeman: Rooney er velkominn til Everton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney á heimleið?
Wayne Rooney á heimleið? vísir/getty
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, er meira en til í að fá Wayne Rooney, fyrirliða Manchester United, til liðs við sig í sumar ef það er í boði. Frá þessu greinir hann í viðtali við Sky Sports.

Rooney ólst upp hjá Everton og spilaði sinn fyrsta leik fyrir bláliða Liverpool-borgar árið 2002. Hann skoraði sitt fyrsta deildarmark á móti Arsenal aðeins 16 ára gamall með frábæru skoti í slána og inn sem gleymist seint.

Eftir frábæra frammistöðu á Evrópumótinu í Portúgal árið 2004 með enska landsliðinu var hann keyptur til Manchester United þar sem hann hefur spilað síðan. Hann hefur verið orðaður frá United að undanförnu og hafnaði risasamningi í Kína á dögunum.

Everton er eitt þeirra liða sem Rooney hefur verið orðaður við en Koeman er ekki á því að framherjinn sé búinn eins og sumum sparkspekingum finnst.

„Ég tel Rooney enn vera að spila mjög vel og hann gerði rétt með að vera áfram hjá Manchester United í ensku úrvalsdeildinni,“ segir Koeman.

„Rooney á tvö til þrjú góð ár eftir. Hvað gerist eftir leiktíðina á eftir að koma í ljós en að mínu mati er hann leikmaður sem myndi gera Everton-liðið betra en það er núna.“

„Þetta snýst allt um hvað leikmaðurinn vill gera og Manchester United. Við komum ekkert við sögu þar. En allir leikmenn sem gera Everton-liðið betra eru velkomnir til Everton,“ segir Ronald Koeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×