Erlent

Breska þingið samþykkir að hefja Brexit-viðræður

atli ísleifsson skrifar
Meirihluti breska þingsins samþykkti í kvöld að heimila ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra að hefja viðræður breskra stjórnvalda við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands.

BBC greinir frá því að 498 þingmenn hafi greitt atkvæði með frumvarpinu, en 114 gegn.

Forysta stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Verkamannaflokksins, studdi tillöguna, en forysta Skoska þjóðarflokksins og Frjálslyndra demókrata voru henni andvíg.

Frumvarpið verður nú tekið til frekari umfjöllunar í báðum deildum breska þingsins áður en það verður gert að lögum.

May hefur áður sagt að stjórn hennar muni virkja 50. grein Lissabonsáttmála ESB fyrir lok marsmánuðar og þannig formlega hefja útgönguferli Bretlands. Búist er við að viðræður Bretlands og ESB muni standa í um tvö ár.

Hæstiréttur Bretlands dæmdi í síðasta mánuði að nauðsyn væri á aðkomu breska þingsins áður en 50. greinin yrði virkjuð. May hafði þá áður sagt að aðkoma þingsins væri óþörf eftir að meirihluti breskra kjósenda kusu með því að landið gengi úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní síðastliðinn.


Tengdar fréttir

Juncker fagnar Brexit-ræðu May

Forseti framkvæmdastjórnar ESB segist ætla að gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja að viðræður ESB og breskra stjórnvalda gangi eins snuðrulaust og kostur er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×