Lögreglan mun ekki fara fram á farbann yfir skipverjanum sem þeir sleppa úr gæsluvarðhaldi í dag en maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi í tvær vikur, grunaður um að bera ábyrgð á dauða Birnu Brjánsdóttur sem hvarf aðfaranótt laugardagsins 14. janúar og fannst látin átta dögum síðar í fjörunni við Selvogsvita.
Þrátt fyrir að hvorki sé farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum né farbann, en hann er grænlenskur, hefur hann enn réttarstöðu grunaðs manns í málinu.
Aðspurður hvers vegna ekki sé farið fram á farbann yfir honum segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, að mat lögreglu hafi verið að ekki sé þörf á því.
Lögreglan mun hins vegar fara fram á áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald yfir hinum manninum sem einnig er grunaður í málinu og er farið fram á að hann sæti enn einangrun.
„Hlutdeild hvors um sig hefur skýrst töluvert og þetta er niðurstaðan,“ segir Grímur í samtali við Vísi.
Mennirnir tveir, sem báðir eru skipverjar á grænlenska togaranum Polar Nanoq, hafa setið í gæsluvarðhaldi og sætt einangrun í tvær vikur.
Unnsteinn Elvarsson, verjandi mannsins sem verður sleppt úr haldi í dag, vill ekki tjá sig um málið við fréttastofu að öðru leyti en því að einangrunin hafi reynst skjólstæðingi sínum erfið og hann muni mögulega aldrei jafna sig á henni.
