Þeir segja að engir fangar í heiminum fái betra útsýni því allir fangaklefar verða með glugga út á fjörðinn. Við blasa stórkostlegir fjallatindar og mögnuð fjarðamynni þar sem skipin sigla út og inn, eins og sjá má í spilaranum hér að ofan. Naaja Nathanielsen er fangelsismálastjóri Grænlands:
„Þetta er nýja fangelsið á Grænlandi. Þetta verður fyrsta lokaða fangelsið hér. Það verður líka opin deild. Það eru þegar sex gæslustofnanir á Grænlandi sem hýsa fanga bæði í gæsluvarðhaldi og afplánun,“ segir Naaja.

Refsingar á Grænlandi hafa þótt frjálslyndar. Líkt og í Vernd á Íslandi eru fangar frjálsir yfir daginn og á Grænlandi geta þeir fengið leyfi til að fara á veiðar með skotvopn en undir eftirliti.
„Það hefur ekki verið hefð fyrir því að vera með fangelsi í grænlenskri réttarmenningu. Menn hafa meiri trú á betrun og því að refsingar stoði ekki heldur þurfi að veita fólki betri tækifæri til að halda áfram. Það hefur verið grundvallaratriði í fullnustukerfi okkar,“ segir Naaja.

„Það eru þeir sem eru of hættulegir til þess að geta verið hér eða þá að glæpir þeirra hafa verið svo hrottalegir að ákveðið hefur verið að vista þá á réttargeðdeild eða lokuðu fangelsi í Danmörku.“
-En er líklegt að Grænlendingur sem til dæmis yrði dæmdur í fangelsi á Íslandi myndi afplána dóminn í þessu nýja fangelsi í Nuuk?
„Ef hann er dæmdur á Íslandi fyrir glæp sem hann framdi þar þá er það íslenska kerfið sem tekur við honum. Eftir það er hægt að sækja um að hann verði fluttur aftur til Grænlands á einhverjum tímapunkti. Það er á borði íslenskra yfirvalda,“ svarar Naaja Nathanielsen.
