Fótbolti

Fimm prósent skráðra fulltrúa á ársþing KSÍ eru konur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Einarsson og Guðni Bergsson eru í framboði til formanns KSÍ.
Björn Einarsson og Guðni Bergsson eru í framboði til formanns KSÍ. Vísir/Stefán
Fjórar konur eru á meðal 83 skráðra aðalþingfulltrúa á ársþingi KSÍ sem fram fer í Vestmannaeyjum um helgina. Alls eru 83 þingfulltrúar skráðir samkvæmt ksi.is en enn á eftir að taka við skráningum fram að þingi. Framkvæmdastjóri KSÍ segir að skráning gangi vel.

Hulda Birna Baldursdóttir (ÍA), Katla Guðjónsdóttir (Víkingur), Feldís Óskarsdóttir (Leiknir) og Guðlaug Sigurðardóttir (Víði) eru konurnar sem eru skráðar sem þingfulltrúar á þinginu um helgina.

Alls hafa 153 fulltrúar rétt til setu á þinginu en kjörbréfum hefur verið skilað fyrir 83 fulltrúa miðað við frétt sem birtist á ksi.is í gær. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við fréttastofu í gærkvöldi að skráning gengi vel. Hún ætti von á fleiri fulltrúum í dag og á morgun. 

Í þeirra hópi eru fleiri konur, t.d. Borghildur Sigurðardóttir, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks sem býður fram krafta sína í aðalstjórn KSÍ. Þar stefnir í harða baráttu en átta berjast um fjögur sæti.

Fjórar konur til viðbótar eru skráðar sem varafulltrúar og fá atkvæðissrétt ef einhver aðalfulltrúanna forfallast. 

Guðni Bergsson og Björn Einarsson eru þeir einu sem eru í framboði til formannsembættis KSÍ. Guðni hefur atkvæðisrétt sem aðalfulltrúi hjá Val en Björn er varafulltrúi fyrir Víking.

Ársþing KSÍ hefst í Vestmannaeyjum klukkan 11.00 á laugardag.

Að neðan má sjá þá þingfulltrúa sem skráðir höfðu verið til leiks þriðjudaginn 7. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×