Enski boltinn

Stjóri Gylfa kryddar umræðuna fyrir leik helgarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sést hér óánægður með ákvörðun Mike Dean í leik Swansea um síðustu helgi.
Gylfi Þór Sigurðsson sést hér óánægður með ákvörðun Mike Dean í leik Swansea um síðustu helgi. Vísir/Getty
Swansea City hefur verið duglegt að safna stigum að undanförnu og hefur með því tekist að komast upp úr fallsæti í ensku úrvalsdeildinni.

Framundan er athyglisverður leikur á móti Englandsmeisturunum í Leicester City sem eru á óvanalegum slóðum fyrir lið í titilvörn.  

Swansea-liðið er nú með 21 stig í 17. sæti deildarinnar eða jafnmörg stig og Leicester.  Það er aðeins eitt stig niður í fallsæti og því gæti tap í leik helgarinnar þýtt að viðkomandi lið sæti í fallsæti að henni lokinni.

Swansea tekur á móti Leicester City á Liberty-leikvanginum á sunnudaginn og úrslit leiksins gætu haft veruleg áhrif á hvert framhaldið verður í fallbaráttunni hjá þessum tveimur liðum.

Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea, hefur gert góða hluti með velska liðið síðan að hann tók við og hann var ekkert að reyna að draga úr mikilvægi leiksins á blaðamannafundi.

„Sálfræðilega gæti það verið mikil vítamínssprauta fyrir okkur að spila vel og vinna þennan leik,“ sagði Paul Clement.

„Liðin eru jöfn að stigum og mætast heldur ekki oftar á tímabilinu. Það gefur þessum leik auka þýðingu (extra spice),“ sagði Clement.

Swansea City hefur spilað fjóra deildarleiki undir stjórn Paul Clement og liðið hefur unnið tvo þeirra. Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað í þremur leikjum í röð og alls átt beinan þátt í fjórum mörkum í þessum fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×