Erlent

Sænskur fréttamaður sakfelldur fyrir að aðstoða flóttadreng

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Önnevall segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar drengurinn bað um aðstoð hans.
Önnevall segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar drengurinn bað um aðstoð hans. vísir/epa
Sænski fréttamaðurinn Fredrik Önnevall var í dag sakfelldur fyrir að hafa smyglað fimmtán ára sýrlenskum dreng til Svíþjóðar í maí 2014. Hann var dæmdur til 75 daga samfélagsþjónustu en saksóknari hafði farið fram á þriggja mánaða fangelsisvist.

Önnevall hélt ætíð fram sakleysi sínu og fór verjandi hans fram á sýknu á grundvelli þess að aðstoðin hafi verið í mannúðarskyni – ekki í hagnaðarskyni. Tveir samstarfsmenn Önnevall voru einnig dæmdir til samfélagsþjónustu.

Mennirnir þrír starfa hjá sænska ríkisútvarpinu SVT og höfðu verið að taka upp heimildarmynd um viðbrögð evrópskra stjórnvalda við flóttamannavandanum í álfunni þegar þeir hittu piltinn, hinn 15 ára Abed í Grikklandi.

Önnevall segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar drengurinn bað um hans aðstoð.

„Ég sé ekki eftir neinu. Ég veit hvað við gerðum og ég myndi gera það nákvæmlega sama í dag,” sagði Önnevall í samtali við SVT skömmu eftir að ákæra var gefin út á hendur honum. „Hvernig get ég séð eftir því að hafa hjálpað óttaslegnum dreng sem grátbað um aðstoð mína?”

Ríkissaksóknari í Svíþjóð sagði að þremenningarnir hefðu brotið lög með því að aðstoða útlending við að komast frá öðru landi, Grikklandi, til Svíþjóðar, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um það að aðilinn væri án vegabréfs og dvalarleyfis í Svíþjóð.

Önnevall segir að ekki sé um smygl að ræða, enda hafi hvorki hann né samstarfsfélagar hans þegið peninga fyrir að koma Abed til landsins. Ekki fylgir sögunni í sænskum fjölmiðlum hvar Abed er staddur í dag.

Önnevall hyggst áfrýja dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×