Innlent

Sprenging um helgina í fjölda þeirra sem styrkja björgunarsveitirnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá leitinni að Birnu um helgina.
Frá leitinni að Birnu um helgina. Vísir
Bakvarðasveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar fékk rækilegan liðsauka um helgina að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa félagsins.

Bakverðirnir eru fjárhagslegir stuðningsaðilar björgunarsveitanna sem greiða mánaðarlegt framlag til Landsbjargar. Þorsteinn segir að undir lok síðustu viku hafi félagið hafi farið að merkja aukinn áhuga almennings að styðja við bakið á sveitunum. Björgunarsveitirnar hafa verið í brennidepli í tengslum við mál Birnu Brjánsdóttur og þeirrar gríðarlegu leitar sem gerð var að henni síðustu daga.

Sjá einnig: Líkfundurinn engin tilviljun: Sjö þúsund kílómetra ganga að baki hjá björgunarsveitunum

Um helgina hafi hins vegar orðið algjör sprenging í nýskráningum í Bakvarðasveitina. Þrátt fyrir að hafa ekki nákvæma tölu fyrir framan sig þegar Vísir náði tali af honum segir Þorsteinn að nýir Bakverðir hlaupi á hundruðum. Hver og einn leggur að jafnaði til um eitt til tvö þúsund krónur á mánuði og því ljóst að hinn aukni stuðningur gæti numið milljónum króna á mánuði.

„Bakverðirnir eru alveg gríðarlega mikilvægir fyrir björgunarsveitirnar. Það fjármagn sem frá þeim kemur fer í sjóð sem svo skiptist svo niður á allar björgunarsveitirnar í landinu. Hver einasta króna nýtist þannig til tækjakaupa, viðhalds á tækjum og reksturs sveitanna,“ segir Þorsteinn.

Bakvarðasveitin var fyrst kynnt til sögunnar um mitt ár 2013 í kjölfar viðburðaríks árs hjá björgunarsveitunum. „Á þeim tíma var alveg bersýnilegt að það þurfti á stuðningi að halda til að bæta fjárhag björgunarsveitanna,“ segir Þorsteinn. „Það er bara staðreynd að það er ógerningur að halda úti leitar- og björgunarstarfi með þeim krafi sem við viljum ef að kæmi ekki til þessa stuðnings almennings.“

Sjá einnig: Fólkið sem leitaði: „Þetta er þverskurður þjóðarinnar“



Aðgerðir Landsbjargar um helgina voru þær umfangsmestu sem ráðist hefur verið í en alls komu um 775 sjálfboðaliðar að leitinni að Birnu, þar af voru 685 leitarmenn, fjörutíu aðgerðastjórnendur og fimmtíu frá slysavarnardeildum. Notast var við ellefu hunda, dróna, fjórhjól og nánast allan bílaflota björgunarsveitanna. Þeim er nú lokið í bili.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast mánaðarlegir stuðningsaðilar Landsbjargar er bent á skráningarsíðu Bakvarðasveitarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×