Enski boltinn

Messan: Rooney er ekkert sérstaklega elskaður á Old Trafford

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sem kunnugt er sló Wayne Rooney markamet Sir Bobbys Charlton hjá Manchester United um helgina.



Rooney tryggði United stig þegar hann jafnaði metin í 1-1 í uppbótartíma gegn Stoke City. Þetta var 250. mark hans fyrir félagið.

Þrátt fyrir að hafa unnið allt sem hægt er að vinna með United og vera orðinn markahæstur í sögu félagsins er arfleið Rooneys nokkuð flókin.

„Hann er ótrúlegur stríðsmaður. Hann hefur mátt þola mikla gagnrýni. Hann er búinn að bæta markametið hjá Englandi og hjá United. Maður fellur stundum sjálfur í þá gryfju að finnast hann ekki nógu góður,“ sagði Arnar Gunnlaugsson í Messunni á mánudagskvöldið.

„Hann missir boltann auðveldlega frá sér og það er ekki sami kraftur í honum og var. Hann verður aldrei aftur byrjunarliðsmaður hjá United en hann getur sinnt ákveðnu hlutverki,“ bætti Arnar við.

Hjörvar Hafliðason segir að Rooney sé ekki sá vinsælasti á Old Trafford, þrátt fyrir allt sem hann hefur afrekað með United.

„Hann er ekkert sérstaklega elskaður á Old Trafford. Hann kemur frá Liverpool sem vinnur ekki með honum. Hann bað svo um að verða seldur 2010 og hefur verið í bölvuðu veseni á Old Trafford síðan þá, sérstaklega meðal harðkjarna stuðningsmanna félagsins,“ sagði Hjörvar.

Að hans mati hefði David Moyes átt að nýta tækifærið þegar hann tók við United sumarið 2013 og láta Rooney fara.

„Það var veikur stjóri hjá United þegar tækifærið var til að láta hann fara. En Moyes gerði nýjan samning við hann og gerði hann að launahæsta leikmanninum í enskum fótbolta,“ sagði Hjörvar.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Markametið féll í Stoke

Wayne Rooney kom Manchester United til bjargar þegar liðið sótti Stoke City heim á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×