Erlent

Montebourg þótti standa sig best í kappræðum sósíalista

Atli ísleifsson skrifar
Arnaud Montebourg, Jean-Luc Bennahmias, Francois de Rugy, Benoit Hamon, Vincent Peillon, Manuel Valls og Sylvia Pinel í gærkvöldi.
Arnaud Montebourg, Jean-Luc Bennahmias, Francois de Rugy, Benoit Hamon, Vincent Peillon, Manuel Valls og Sylvia Pinel í gærkvöldi. Vísir/AFP
Franski sósíalistinn Arnaud Montebourg, fyrrverandi ráðherra iðnaðarmála, þótti standa sig best í sjónvarpskappræðum þeirra sem sækjast eftir að verða forsetaefni franskra sósíalista í gærkvöldi.

Montebourg atti þar kappi við sex aðra frambjóðendur – fimm karla og eina konu, en sósíalistar munu velja forsetaefni sitt síðar í mánuðinum.

Kannanir benda flestar til að frambjóðandi sósíalista, hver svo sem það verður, muni ekki eiga mikla möguleika gegn Repúblikananum Francois Fillon og Marine Le Pen, forsetaefni Þjóðfylkingarinnar.

Í frétt Aftonbladet segir að kappræðurnar hafi staðið í um tvo og hálfan tíma þar sem meðal annars var deilt um frammistöðu sósíalistans Hollande í embætti forseta. Hollande nýtur gríðarlegra óvinsælda um þessar mundir og lýsti því yfir í síðasta mánuði að hann sækist ekki eftir endurkjöri.

Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra, er talinn líklegastur til að verða forsetaefni sósíalista, en kannanir benda til að bæði Montebourg og Benoît Hamon gætu einnig hreppt hnossið.

Fyrri umferð forsetakosninganna fer fram 23. apríl. Hljóti enginn hreinan meirihluta verður kosið milla tveggja efstu í síðari umferðinni sem fram fer 7. maí. Kannanir benda til að Frakkar munu kjósa milli Fillon og Le Pen í síðari umferðinni.

Montebourg lét af störfum sem ráðherra árið 2014 eftir að hann gagnrýndi efnahagsstefnu Hollande forseta.


Tengdar fréttir

Hollande sækist ekki eftir endurkjöri

Francois Hollande Frakklandsforseti greindi frá því í kvöld að hann mun ekki sækjast eftir að vera forsetaefni Sósíalistaflokksins í forsetakosningunum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×