Erlent

Fillon verður forsetaefni franska Repúblikanaflokksins

Anton Egilsson skrifar
Francois Fillon verður forsetaefni franska Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum næsta vor.
Francois Fillon verður forsetaefni franska Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum næsta vor. Vísir/AFP
Francois Fillon verður forsetaefni franska Repúblikanaflokksins í komandi forsetakosningum sem fram fara í apríl á næsta ári. Keppinautur hans, Alain Juppe, hefur játað sig sigraðann.

Nú þegar meirihluti atkvæða hefur verið talinn hefur Fillon hlotið 68 prósent greiddra atkvæða gegn 32 prósentum Juppe. BBC greinir frá. 

Í fyrri hluta kosninganna hlaut Fillon 44,2 prósent atkvæða, Juppé 28,4 prósent og forsetinn fyrrverandi, Nicolas Sarkozy, 20,7 prósent. Litlu munaði að Fillon næði 50 prósent atkvæða sem hefði gert síðari umferðina óþarfa.

„Ég verð núna að sannfæra þjóðina alla um að okkar verkefni sé það eina sem geti lyft okkur upp.” Sagði Francois Fillon eftir að niðurstöður lágu fyrir.

Juppe einlægur í kjölfar ósigursins

Alain Juppe sagði við stuðningsmenn sína í kjölfar niðurstöðunnar að hann ætli að enda kosningabaráttu sína á sama hátt og hann byrjaði hana.

„Sem frjáls maður, sem svíkur ekki það sem hann er eða það sem hann heldur fram.”

Benda skoðanakannanir til þess að Fillon muni kljást við Marine Le Pen, leiðtoga Front National, í forsetakosningunum næsta vor. Sósíalistar munu velja sitt forsetaefni í janúar, en sósíalistinn Francois Hollande Frakklandsforseti hefur enn ekki lýst því yfir hvort hann sækist eftir endurkjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×