„Við höfum komist yfir stærstu þröskuldana. Núna munum við nota næstu daga í að skrifa stjórnarsáttmála. Það í sjálfu sér þarf ekkert að taka neitt rosalega langan tíma en við erum ekkert að flýta okkur að neinu,“ segir Benedikt. „Við ákváðum að taka okkur frí á nýársdag en munum hefjast handa strax í byrjun vikunnar.“
Viðræður flokkanna þriggja hafa tekið nokkuð langan tíma frá því að upp úr slitnaði í viðræðum fimm flokka á vinstri vængnum undir forystu Birgittu Jónsdóttur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk umboð forseta rétt fyrir áramót til að mynda ríkisstjórn enda höfðu samningaviðræður flokkanna þokast í rétta átt yfir hátíðirnar.

Líkt og í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og VG árið 2009 verður ákvæði í stjórnarsáttmála um að skoðanir flokkanna sem mynda ríkisstjórn séu mismunandi, að þeir virði skoðanir hver annars og að ríkisstjórnarflokkunum verði í sjálfsvald sett hvernig þeir greiði atkvæði um þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi ESB á kjörtímabilinu.

Þannig mun markaðurinn ákveða hvað samfélagið geti fengið fyrir aflaheimildir á markaði.
Varðandi landbúnaðarmál verða tollar lækkaðir á bæði kjúklinga- og svínakjöt og tollar á osta og aðrar landbúnaðarafurðir verða lækkaðir í áföngum á næsta kjörtímabili samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.
Einnig verður endurskoðun búvörusamninga tekin föstum tökum. Þá hefur náðst samkomulag milli flokkanna þriggja um að undanþágur Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum verði afnumdar.