Erlent

Sextíu látnir eftir óeirðir og gíslatöku í brasilísku fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Ekki liggur fyrir hve mörgum föngum tókst að sleppa úr fangelsinu.
Ekki liggur fyrir hve mörgum föngum tókst að sleppa úr fangelsinu. Vísir/Getty
Sextíu manns hið minnsta eru látnir eftir óeirðir og gíslatöku í fangelsi í brasilísku borginni Manaus.

Frá þessu greinir Globo TV og vísar í heimildarmenn innan brasilísku lögreglunnar.

Í frétt VG segir að óeirðirnar hafi blossað upp síðdegis í gær, en þær má rekja til deilna tveggja gengja í fangelsinu.

Óeirðirnar stóðu í heilar sautján klukkustundir eða þar til öryggissveitum tókst loks að ná tökum á ástandinu. Óttast er að tala látinna komi til með að hækka.

Tólf fangaverðir og fjöldi fanga eiga að hafa verið teknir í gíslingu og var þeim síðustu sleppt í morgun.

Sex mönnum, sem höfðu verið hálshöggnir, var kastað yfir veggi fangelsins.

Ekki liggur fyrir hve mörgum föngum tókst að sleppa úr fangelsinu.

Óeirðir í brasilískum fangelsum eru tíð en þetta eru þær mannskæðustu í mörg ár. Árið 1992 fórstu 111 fangar í óeirðum í fangelsi í Sao Paulo, en flestir fórust þeir þegar lögregla skaut á þá þegar ráðist var til inngöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×