Mótmælendurnir veifa fánum Katalóníu og kalla orðið frelsi ítrekað. Einnig hafa mótmælendur sést með borða sem á stendur „SOS Lýðræði“.
AFP fréttaveitan segir lögregluna áætla að um 750 þúsund manns taki þátt í mótmælunum í Barcelona.
Samkvæmt frétt Reuters hafa deilur komið upp á milli sjálfstæðisfylkinga í Katalóníu og einnig á milli leiðtoga fylkinganna og grasrótar þeirra. Carme Forcadell, forseta héraðsþings Katalóníu, var sleppt úr fangelsi fyrir helgi. Henni var sleppt eftir að hann samþykkti að afneita sjálfstæðishreyfingunni og mun hún því ekki geta barist fyrir sjálfstæði í kosningunum sem halda á í Katalóníu í desember.
Flokki Carles Puigdemont, sem er nú í Belgíu, tókst ekki að ná samkomulagi um sameiginlegan framboðslista með annarri sjálfstæðisfylkingu og varaforseti Katalóníu, Oriol Junqueras, mun leiða flokk sinn, Esquerra Republicana, úr fangelsi.
Alls sitja átta meðlimir í ríkisstjórn Katalóníu, sem yfirvöld Spánar hafa fellt niður, í fangelsi. Sex hefur verið sleppt gegn tryggingu og Puigdemont og fjórir aðrir eru í Belgíu að berjast gegn því að vera framseldir til Spánar. Þeir segjast ekki vilja fara þangað þar sem muni ekki fá sanngjörn réttarhöld.
Ákærurnar sem fólkið á yfir höfði sér varða, meðal annars, uppreisn, landráð og valdníðslu.
