Joe Lombardo, sýslumaðurinn í Clark-sýslu sem Las Vegas tilheyrir, segir að lögreglumenn einbeiti sér nú að fjórum stöðum í rannsókn sinni; heimili morðingjans í Mesquite, herbergi á Mandalay Bay-hótelinu þaðan sem hann skaut, tónleikastaðurinn og hús í norðurhluta Nevada.
Þá fundust nokkur kíló af ammóníumnítrati sem er notað við sprengjugerð í bíl morðingjans.
Ríkisstjóri Nevada hefur lýst yfir neyðarástandi í Clark-sýslu. CNN segir að fólk hafi beðið í allt að átta klukkustundir eftir að geta gefið blóð eftir að borgarstjóri Las Vegas óskaði eftir blóðgjöfum.

Paddock skaut fólkið út um glugga á 32. hæð hótelsins. Talið er að hann hafi notast hamar til að brjóta gluggann. Skotárásin er sögð sú mannskæðasta í samtímasögu Bandaríkjanna.
AP-fréttastofan hefur eftir tveimur embættismönnum að 17 skotvopn hafi fundist á hótelherberginu. Lombardo sagði fyrr í dag að tíu byssur hefðu fundist þar.
Lögreglan vill enn ná tali af Marilou Carney, kærustu Paddock. Hún er stödd erlendis á ferðalagi.