Erlent

Morðinginn var fjárhættuspilari og sonur bankaræningja

Kjartan Kjartansson skrifar
Karlmaður á sjötugsaldri sem myrti að minnsta kosti 58 og særði hundruð manna á tónleikum í Las Vegas í nótt er sagður hafa eytt eftirlaunaárum sínum í að spila fjárhættuspil fyrir fúlgur fjár. Faðir hans var eitt sinn á meðal tíu eftirlýstustu glæpamanna Bandaríkjanna.

Stephen Paddock var 64 ára gamall en hann er talinn hafa svipt sig lífi eftir að hann lét skotum rigna yfir tónleikagesti í Las Vegas í gærkvöldi. Yfir fimm hundruð manns eru sárir eftir skotárásina sem er sögð sú mannskæðasta í samtímasögu Bandaríkjanna.

Bróðir hans, Eric, segir að morðinginn hafi verið hættur að vinna. Hann hafi stundað fjárhættuspil af miklum móð og lagt háar fjárhæðir undir. Morðin komu honum og fjölskyldunni algerlega í opna skjöldu.

„Hann var bróðir minn og þetta er eins og að loftsteinn hafi fallið af himnum ofan,“ segir Eric Paddock við CNN-fréttastöðina.

Faðir þeirra var eitt sinn á lista alríkislögreglunnar FBI yfir tíu eftirlýstustu menn Bandaríkjanna þegar hann var á flótta eftir bankarán.

Höfðu engar upplýsingar um manninn áður

Lögreglan hefur leitað að kærustu Paddock, Marilou Danley, sem er sögð hafa búið með honum síðustu árin. Ekki er talið að hún hafi haft neitt að gera með skotárásina og að hún hafi verið stödd á Filippseyjum á meðan.

Joseph Lombardo, lögreglustjóri Las Vegas, segir að yfirvöld hafi ekki haft neinar upplýsingar um Paddock áður en hann myrti tugi manna með köldu blóði.

„Ég veit ekki hvernig hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta,“ segir hann.

Rúmlega tuttugu þúsund manns voru á tónleikum utandyra þegar Paddock hóf skothríð. Mikil skelfing braust út.Vísir/AFP
Engar tengingar við hryðjuverk, pólitík eða trú

Lítið er vitað um hvað Paddock gekk til. Lombardo segir að engin tengsl hafi fundist við hryðjuverkahópa og svo virðist sem að hann hafi staðið einn að árásinni.

Bróðir hans segir að fjölskyldan viti ekki um neinar pólitískar eða trúarlegar tengingar sem hann hafi haft.

Nágrannar Paddock í hverfi eftirlaunaþegar í borginni Reno lýsa honum sem fáskiptum og að parið hafi horfið dögum og jafnvel mánuðum saman þegar þau fóru að spila fjárhættuspil, að því er segir í frétt Washington Post.

Gögn benda til þess að Paddock hafi átt skotvopn í gegnum tíðina, þar á meðal í Kaliforníu. Fleiri en tíu byssur fundust á hótelherbergi Paddock í Las Vegas en lögreglan telur að vopnin hafi hann keypt löglega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×