Flokkar sem styðja sjálfstæði Katalóníu eru með meirihluta á héraðsþinginu þegar 95% atkvæða í kosningum til þess hafa verið talin. Hægriflokkurinn Borgararnir stefnir hins vegar í að verða stærsti flokkurinn á héraðsþinginu.
Saman fyrir Katalóníu, Lýðveldissinnaði vinstriflokkur Katalóníu og Almenn samstaða fá 70 sæti á héraðsþinginu og þar með meirihluta. Óvíst er þó hver fær umboð til að mynda nýja héraðsstjórn í ljósi þess að Borgararnir verða að líkindum stærsti einstaki flokkurinn með 25% atkvæða og 36 þingsæti, að því er segir í frétt BBC.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, boðaði til kosninganna í október þegar hann leysti héraðsstjórnina upp. Það gerðist í kjölfar þess að héraðsstjórnin hafði lýst einhliða yfir sjálfstæði Katalóníu eftir umdeilda þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sjálfstæðissinnar í Katalóníu halda meirihluta sínum
Kjartan Kjartansson skrifar
