Sólríkt og gott veður verður í dag og á morgun en hitastigið gæti náð allt að tuttugu stigum á suðvesturhluta landsins. Suðlægar áttir með vætu verða hins vegar ríkjandi frá og með miðvikudeginum og frma á næstu helgi.
„Góðviðrisdagar í dag og á morgun,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Þá verður skýjað fyrir norðan og austan en allar líkur eru á að það nái að létta til víða norðvestanlands og jafnvel einnig við Eyjafjörð þegar líður á daginn. Annars yfirleitt skýjað fyrir austan og smáskúrir.
Hér fyrir neðan má sjá veðurhorfur á landinu næstu daga en hægt er að skoða nánari spá á veðursíðu Vísis:
Miðvikudagur
Sunnan 8-13 m/s og rigning, en hægari og þurrt NA-til. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast NA-lands.
Fimmtudagur
Hægviðri og rigning SA-til framan af degi, en annars stöku síðdegisskúrir. Hiti 10 til 17 stig.
Föstudagur
Suðaustan 8-15 m/s, hvassast við SV-ströndina. Rigning víða um land, en lengst af þurrt NA-til. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast NA-til.
Laugardagur
Suðvestlæg átt, skúrir og kólnar í veðri.

