Lögregla í Finnlandi leitar nú manns sem var í dag dæmdur í fjórtán og hálfs árs fangelsi fyrir tvö manndráp, þrjár tilraunir til manndráps og fjölmörg brot til viðbótar.
Hinn 51 árs gamli Pekka Tapani Seppänen var ekki á heimili sínu þegar lögregla fór þangað til að sækja hann í morgun.
„Nú leitum við að manninum á öllum hugsanlegum stöðum. Við hófum leit um leið og dómurinn féll og fjölmennt lið tekur þátt í leitinni. Þetta er umfangsmikil aðgerð og í forgangi,“ segir rannsóknarlögreglumaðurinn Kimmo Wetterstrand í samtali við Ilta-Sanomat.
Maðurinn hefur í fjölmiðlum verið kallaður „raðdrekkjarinn frá Kontiolahti“. Í ákæru sagði að hann hafi farið með fórnarlömb sín, sem áttu það sameiginlegt að vera illa synd, út á stöðuvatn þar sem hann reyndi að fá þau til að hrasa út í vatnið.
Áður hafði komið fram að fórnarlömbin hafi setið að sumbli með Seppänen og var upphaflega talið að um slys hafi verið að ræða sem rekja mætti til áfengisneyslu.
Í frétt Hbl er haft eftir lögreglu að maðurinn sé mjög hættulegur, en hann var í gæsluvarðhaldi í nokkra mánuði á meðan rannsókn stóð yfir.
Brotin áttu sér öll stað í Norður-Karelíu í austurhluta Finnlands, á árunum 2007 til 2014.
Umfangsmikil leit að finnskum manni sem dæmdur var fyrir að drekkja fólki
Atli Ísleifsson skrifar
