Stóð á veginum
Vettvangur slyssins var ómerktur ferðamannastaður en eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum er bílastæði ekki til staðar og ferðamenn leggja þar utan vegar. Segir í lýsingu á slysinu í umræddri skýrslu:
„Að kvöldi 17. september 2016 var 9 manna hópur erlendra ferðamanna ásamt erlendum leiðsögumanni sínum á vesturleið um Suðurlandsveg á tveimur bifreiðum. Það var myrkur og vestlægur vindur um 10 m/s. Til móts við veginn niður á Sólheimasand var bifreiðunum lagt norðan Suðurlandsvegar og samkvæmt ferðamönnunum steig leiðsögumaðurinn út úr bifreiðinni til að líta til vegar. Á sama tíma var Volkswagen Polo bílaleigubifreið ekið vestur Suðurlandsveg.“
Kemur fram í skýrslunni að auk ökumanns hafi verið einn farþegi í framsæti og var hann sofandi, báðir erlendir ferðamenn.
„Skyndilega sá ökumaðurinn mann standa við veginn og tveimur til þremur sekúndum seinna sá hann annan mann standa á veginum og snúa baki í akstursstefnu bifreiðarinnar. Var það staðfest við rannsókn málsins. Kvaðst ökumaðurinn hafa hemlað en ekki náð að sveigja frá og ekið á manninn. Maðurinn lenti vinstra megin á vélarhlíf bifreiðarinnar, kastaðist síðan af bílnum og út fyrir veg. Við slysið hlaut hann banvæna fjöláverka. Hinn látni var í bláum vindjakka yfir svartri peysu og í svörtum buxum. Engin endurskinsmerki voru á fatnaðinum.“

Hinn látni lést á slysstað vegna áverka sinna en niðurstöður krufningar staðfestu að hann hafi snúið baki í bifreiðina þegar slysið varð. Bæði ökumaður og farþegi í bílnum voru spenntir í öryggisbelti og hlutu engin meiðsli.
„Samkvæmt frásögn ökumanns taldi hann sig vera á um 90 km/klst hraða. Niðurstöður hraðaútreiknings benda til þess að hraðinn hafi verið um 88 km/klst.“
Hámarkshraðinn á þessum vegakafla var lækkaður niður í 70 km/klst eftir banaslysið.