Uppreisnarmenn, sem studdir eru af Tyrkjum, undirbúa sig nú fyrir árás á hina mikilvægu borg al-Bab í norðurhluta Sýrlands. Borgin er eins og er í haldi Íslamska ríkisins en uppreisnarmennirnir hafa sótt að borginni um nokkuð skeið.
Al-Bab verður sífellt mikilvægari í stríðinu í Sýrlandi, en með hernámi borgarinnar væru uppreisnarmennirnir og Tyrkir í lykistöðu til að styðja við bakið á uppreisnarmönnum sem enn halda til í Aleppo.
Borgin situr einnig á milli yfirráðasvæða Kúrda í norðurhluta landsins og er óttast að sókn uppreisnarmannanna gæti kynnt undir frekari átök á milli þeirra og Kúrda.
Hægt er að sjá stöðuna á korti hér.
Kúrdarnir standa nú í mikilli sókn að borginni Raqqa, höfuðvígis ISIS, og gætu átök milli þeirra og FSA hægt á eða jafnvel stöðvað sóknina.
Meginátök Sýrlands snúa að stjórnarliðum Bashar al-Assad og bandamanna hans í Rússlandi, Íran og Líbanon gegn uppreisnarhópum sem styrktir eru af Tyrklandi, Bandaríkjunum og löndum Arabíuskaga eins og Sádi-Arabíu.
Ofan á það eru fjölmargir vígahópar sem starfa jafnvel náið með uppreisnarhópum. Þá hafa Kúrdar lagt undir sig stór svæði í norðurhluta Sýrlands, en Tyrkir og uppreisnarhópar eru mjög á móti auknum umsvifum þeirra.
Allar áðurnefndar fylkingar berjast svo gegn Íslamska ríkinu.
Uppreisnarmenn undirbúa árás á mikilvæga borg ISIS
Samúel Karl Ólason skrifar
