Þjóðverjinn Bastian Schweinsteiger og Írinn Robbie Keane léku sína síðustu landsleiki í kvöld.
Schweinsteiger kvaddi þýska landsliðið í 2-0 sigri á Finnlandi á Borussia-Park í Mönchengladbach.
Max Meyer og Mesut Özil skoruðu mörk Þjóðverja í leiknum en Schweinsteiger fékk heiðursskiptingu á 68. mínútu.
Schweinsteiger lék alls 121 landsleiki og skoraði 24 mörk. Hann varð heimsmeistari með Þjóðverjum fyrir tveimur árum.
Keane skoraði í kveðjuleiknum sínum, 4-0 sigri á Óman. Þetta var 68. mark hans fyrir írska landsliðið en hann er langmarkahæsti leikmaður þess frá upphafi.
Keane á einnig leikjamet írska landsliðsins en hann lék 146 landsleiki á árunum 1998-2016.
Jon Walters (2) og Robbie Brady skoruðu hin mörk Íra í leiknum í kvöld.
Meðal annarra úrslita í vináttulandsleikjum má nefna að Danir burstuðu Liechtenstein 5-0 og Tyrkir, sem eru með Íslendingum í riðli í undankeppni HM 2018, gerðu markalaust jafntefli við Rússa á heimavelli.
