Erlent

Gríðarleg eyðilegging á Haítí

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sameinuðu þjóðirnar segja að Haítíbúar standi nú frammi fyrir einum mesta vanda sem steðjað hefur að frá því að stóri skjálftinn reið þar yfir árið 2010 og lagði landið nánast í rús
Sameinuðu þjóðirnar segja að Haítíbúar standi nú frammi fyrir einum mesta vanda sem steðjað hefur að frá því að stóri skjálftinn reið þar yfir árið 2010 og lagði landið nánast í rús vísir/epa
Fellibylurinn Matthew gekk yfir Haítí í morgun en hann er sá öflugasti sem gengið hefur yfir eyjuna í rúman áratug. Gríðarlegt úrhelli og flóð fylgdu fellibylnum, en hann skall á Kúbu í nótt og stefnir nú í átt að Flórída í Bandaríkjunum.

Meðalvindhraði náði yfir 230 kílómetrum á klukkustund, eða rúmlega 60 metrum á sekúndu. Að minnsta kosti sjö eru látnir og óttast er að talan muni fara hækkandi eftir því sem líður á daginn. Eyðileggingin er mikil, þá einna helst í suðurhluta landsins.Tjón varð minna á Kúbu.

Sameinuðu þjóðirnar segja að Haítíbúar standi nú frammi fyrir einum mesta vanda sem steðjað hefur að frá því að stóri skjálftinn reið þar yfir árið 2010 og lagði landið nánast í rúst.

Eyðileggingin er hvað verst í hafnarbænum Les Cayes. Íbúar líkja ástandinu við að valtari hafi farið yfir bæinn allan. Myndir sýna hvernig vatnið nær fólki að öxlum og þá birti bæjarstjórinn, Jean Gabriel Fortune, meðfylgjandi myndskeið af ástandinu.

Tugir þúsunda halda til í neyðarskýlum og fregnir hafa borist af því að spítalar séu yfirfullir. Skortur er á vatni víða og þá er rafmagnslaust víðast hvar.

UNICEF hefur lýst yfir áhyggjum af ástandinu og segja yfir fjórar milljónir barna í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×