Gerard Pique, varnarmaður Barcelona, segir að Manchester City spili svipaðan fótbolta og Katalóníuliðið.
Man City mætir Barcelona á Nývangi í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Knattspyrnustjóri Man City, Pep Guardiola, er öllum hnútum kunnugur á Nývangi en hann lék lengi með Barcelona og stýrði liðinu svo með frábærum árangri á árunum 2008-12.
Pique segir að leikstíll Man City undir stjórn Guardiola sé svipaður og hjá Barcelona.
„Þeir spila eins og við því Pep var hérna í mörg ár,“ sagði Pique sem var einn af fyrstu leikmönnunum sem Guardiola keypti til Barcelona þegar hann tók við liðinu.
„Man City pressar hátt uppi á vellinum, þeir vilja hafa boltann og skapa færi. Hann [Guardiola] lítur á fótbolta sömu augum og við. Þetta verður krefjandi leikur,“ bætti Pique við.
Leikur Barcelona og Man City hefst klukkan 18:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD.
