Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, er í liði vikunnar hjá norska blaðinu VG eftir frammistöðu sína í þriðju umferð deildarinnar.
Molde hafði þar sigur á lærisveinum Rúnars Kristinssonar í Lilleström, 4-2, en Eiður Smári skoraði úr vítaspyrnu og lagði upp annað mark fyrir Molde í leiknum.
Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Molde, var virkilega ánægður með frammistöðu Eiðs Smára í leiknum eins og má lesa hér.
„Kláraði 21 sendingu af 25 á vallarhelmingi Lilleström og skoraði úr sínu eina færi,“ segir um Eið Smára sem fær sjö í einkunn eins og hinn framherji úrvalsliðs vikunnar, Tond Olsen hjá Bodö/Glimt.
Alls eru þrír leikmenn úr Bodö/Glimt í liði vikunnar eftir 3-1 sigur á Stabæk á heimavelli en Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, er ekki einn af þeim.
Eiður Smári í liði vikunnar

Tengdar fréttir

Solskjær ánægður með Eið Smára: Súperframmistaða hjá Guðjohnsen
Ole Gunnar Solskjær, þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Molde, var ánægður með frammistöðu íslenska landsliðsmannsins Eiðs Smára Guðjohnsen í 4-2 sigri Molde á Lilleström í kvöld.

Eiður Smári með mark og stoðsendingu í sigri á strákunum hans Rúnars
Eiður Smári Guðjohnsen hafði greinilega gott af því að fá frí frá landsliðinu því hann átti flottan leik í kvöld þegar lið hans Molde vann 4-2 sigur á Lilleström í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta.